146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[15:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að sem allra mest gegnsæi á markaði er æskilegt. Hér er hins vegar um innleiðingu frá Evrópusambandinu að ræða. Þar eru sett þessi ákveðnu mörk og við tökum þau algjörlega upp í því frumvarpi sem liggur fyrir. Ég er líka sammála hv. þingmanni að í því er þó mikil réttarbót. Við tiltölulega lág mörk eru gerningar orðnir tilkynningarskyldir og þar af leiðir að það verður mun erfiðara en áður fyrir aðila að fela eignarhald eða framtíðareignarhald með samningum um skortsölu. Ég er sammála því að þarna er um breytingu til bóta að ræða. En skýringin fyrir því að þetta er gert með þeim hætti er sú sem ég nefni, að við erum að taka upp evrópska gerð.