146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[15:53]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þarna er um að ræða innleiðingu á evrópskri gerð. Þegar verið er að færa gerðir Evrópusambandsins í lög í hverju landi er verið að búa til ákveðið lágmark. Það er að sjálfsögðu leitast við að ná því sem er kallað hámarkssamlögun milli Evrópulanda og EES-ríki þar með talin. En hámarkssamlögunin hefur aldrei þýtt í praxís að lönd geti ekki gengið lengra í vissum tilfellum, á meðan þau samlagast, en í meginmarkmiðum þeirrar tilskipunar sem um ræðir.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé tilefni til að við göngum svolítið lengra, sýnum gott fordæmi fyrir önnur Evrópuríki og setjum fram betra skráningarkerfi sem er hraðara og skilvirkara og jafnvel ódýrara í framkvæmd fyrir Fjármálaeftirlitið og þar með fyrir ríkissjóð með því að útvíkka tilkynningarskylduna til allra, fjarlægja þennan skilyrðaflaum og setja þar í stað ákvæði um rafræna tilkynningarskyldu sem yrði orðuð þannig að það samræmdist ákvæðum Evrópugerðarinnar eins mikið og mögulegt væri. Er þetta ekki rétt leið áfram frekar en að bíða eftir að Evrópusambandið leggi til að við förum þá leið?