146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[16:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að við hæstv. fjármálaráðherra deilum þeirri skoðun að Fjármálaeftirlitið eigi að vera sterkt og beri ábyrgð. Ég lýsi því yfir í ræðustól Alþingis að ég bíð spennt eftir því að sjá hvort hæstv. fjármálaráðherra ætli sér að gera eitthvað í þeim efnum til að mæta þeirri gagnrýni sem komið hefur fram m.a. af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nokkuð ítrekað, það er nokkuð hreinskilin gagnrýni sem þar hefur komið fram. Ég veit ekki hvort hálft til eitt stöðugildi nægi og dugi til bara vegna þeirra verkefna sem koma fram í einu frumvarpi.

Ég myndi halda að það þyrfti að styrkja Fjármálaeftirlitið með ýmsum hætti. Þetta hér er náttúrlega leið til þess, vegna þess að þarna eru afmörkuð verkefni og þau eru skýrð betur í frumvarpinu. Mig langar hins vegar í þeim efnum að spyrja um eitt atriði frumvarpsins sem ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi svör við og það er varðandi stjórnvaldssektirnar. Mig langar að athuga með það sem kemur fram í 9. gr., hvort hæstv. fjármálaráðherra getur svarað mér því hvers vegna þessi sjö ár hafi verið ákveðin varðandi stjórnvaldssektir og heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir, að þær myndu falla niður þegar sjö ár eru liðin. Eins og við þekkjum taka efnahagsbrot yfirleitt lengri tíma í rannsókn en önnur brot. Því velti ég fyrir mér af hverju nákvæmlega þessi tala og þetta tímabil hafi verið fundið út.