146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, það eru smávægilegar reglur sem eru öðruvísi, þ.e. reglur um ávinnslu réttinda. Þær hafa hins vegar ekki mikil áhrif í ljósi þess að sjóðurinn hefur ekki tekið við nýjum félögum síðan árið 1997, held ég. Eins og fram kemur fer sjóðfélögum hratt fækkandi á hverju ári, ekki vegna þess að þeir séu að falla frá heldur vegna þess að þeir eru að komast yfir á eftirlaun og eru því ekki virkir í réttindaávinnslu lengur. Þetta frumvarp er hins vegar unnið í samvinnu við fulltrúa þeirra sem eru sjóðfélagar. Um það er sátt meðal þeirra. Það er því talið að sá smávægilegi munur sem þarna er muni ekki hafa teljandi áhrif á réttindi sjóðfélaga nema til hins betra.