146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[16:14]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er áhugavert að svona sérreglur séu, en það var kannski eðli lífeyrissjóðakerfisins eins og það var hér áður fyrr. En ég hjó eftir orðinu „smávægilegur“ í svari hæstv. fjármálaráðherra. Nú hef ég ekki alveg skilning á því hvað telst smávægilegt í dag. Erum við að tala um einhverjar örfáar krónur eða þúsundkalla eða erum við að tala um eitthvað sem gæti hljóðað upp á einhverjar milljónir fyrir hugsanlega sjóðfélaga? Ég spyr að þessu kannski ekki síst vegna þeirrar umræðu sem við höfum átt fyrr í dag um skilgreiningu svona hugtaka. Þrátt fyrir að það sé að sjálfsögðu gott að þetta sé unnið í samvinnu við hagsmunaaðila í viðkomandi lífeyrissjóðum þá er mjög mikilvægt að við vitum umfang þeirrar réttindaskerðingar sem gæti átt sér stað með brottfalli þessara laga svo ekki verði um villst.