146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[16:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lánshæfismatsfyrirtæki. Frumvarpið innleiðir í íslensk lög reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1060/2009, um lánshæfismatsfyrirtæki, ásamt síðari breytingum og aðlögunum sem samið var um við ESB vegna upptöku gerðanna í EES-samninginn. Markmið frumvarpsins er að bæta gæði lánshæfismats, draga þannig úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika. Markmiðið er einnig að tryggja öflugt og samræmt eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Lánshæfismatsfyrirtæki bjóða þjónustu við að meta lánshæfi fyrirtækja og ríkja og útlánaáhættu við fjárfestingu í ýmsum tegundum fjármálagerninga. Kjarninn í starfi lánshæfismatsfyrirtækja felst í því að veita hlutlaust mat á lánshæfi lántakenda til að aðstoða fjárfesta í vali á fjárfestingum sínum. Við framkvæmd lánshæfismats beita lánshæfismatsfyrirtæki ákveðinni aðferðafræði og gefa fyrirtækjum eða ríkjum svokallaðar lánshæfiseinkunnir. Á Íslandi eru ekki til heildarlög um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja eða framkvæmd lánshæfismats. Þá er starfsemin hvorki skráningarskyld né tiltekinn aðili skilgreindur sem eftirlitsaðili með starfsemi þeirra. Með lögfestingu þessara laga er fyrirséð að breyting verði á þessu. Lánshæfismatsfyrirtæki á Íslandi munu þurfa að sækja um skráningu sem slík til Eftirlitsstofnunar EFTA jafnframt því sem þau munu lúta eftirliti stofnunarinnar. Á móti kemur að slík skráning mun gilda innan alls Evrópska efnahagssvæðisins.

Þá verður lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum, vátryggingafélögum, endurtryggingafélögum, eignastýringarfélögum, fjárfestingarfélögum, stjórnendum sérhæfðra sjóða og miðlægum mótaðilum óheimilt að nota lánshæfismat í eftirlitsskyni, t.d. við útreikning á eiginfjárkröfum, nema slíkt lánshæfismat sé gefið út af skráðu lánshæfismatsfyrirtæki.

Uppbygging frumvarpsins er á þá leið að í fyrsta lagi er reglugerðum Evrópusambandsins um lánshæfismatsfyrirtæki veitt lagagildi ásamt þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í öðru lagi er kveðið á um að Eftirlitsstofnun EFTA og Fjármálaeftirlitið annist eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum með staðfestu hérlendis.

Í þriðja lagi eru ákvæði um að Eftirlitsstofnun EFTA hafi heimild til almennra rannsókna og vettvangsskoðana hjá lánshæfismatsfyrirtækjum á Íslandi en til þeirra þurfi heimild dómara nema samþykki liggi fyrir.

Í fjórða lagi eru ákvæði um upplýsingagjöf til evrópskra eftirlitsstofnana og stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í fimmta lagi er kveðið á um aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA hér á landi og málskot til EFTA-dómstólsins.

Virðulegi forseti. Helstu áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru að skapa traustari umgjörð um lánshæfismatsfyrirtæki og eftirlit með þeim, draga úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika. Þá er það einnig til þess fallið að auka gæði lánshæfismats og tryggja að ekki sé treyst á slíkt mat í blindni við fjárfestingar. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja fjármálamarkaði hér á landi og til að standa við samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.