146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég tek undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að markmið þessara laga, um að bæta gæði lánshæfismats og draga þannig úr kerfisáhættu og stuðla að frekari fjármálastöðugleika, er afskaplega mikilvægt. Lánshæfismatsfyrirtæki spiluðu stórt hlutverk í hinni alþjóðlegu fjármálakrísu. Byggt var á mati þeirra þar sem var hægt að gefa endalaust út af skuldabréfavafningum og öðru slíku. Það voru margir sem spurðu sig um gæði þessa lánshæfismats og alveg ljóst að lánshæfismatsfyrirtækin spiluðu mjög stórt hlutverk í þeirri alþjóðlegu fjármálakrísu sem við erum enn svo sem að eiga við að einhverju leyti. Ég fagna því verulega að þetta frumvarp sé komið fram vegna þess að það miðar auðvitað að því að auka gæði lánshæfismatsins og efla og samræma eftirlit með þeim.

Fram kemur varðandi meginefni frumvarpsins að þetta eigi líklega við um eitt lánshæfismatsfyrirtæki á Íslandi sem þurfi að lúta eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA. Mig langar aðeins að spyrja fjármála- og efnahagsráðherra hvaða kostnaður myndi fylgja því fyrir viðkomandi fyrirtæki að innleiða þetta. Ég sá það ekki alveg í fljótu bragði, þetta frumvarp er mjög jákvætt, en mig langar kannski aðeins að spyrja út í það. Svo tel ég í rauninni að allt gagnsæi og meira regluverk í kringum lánshæfismatsfyrirtækin sé af hinu góða. Það var það helsta sem ég vildi koma hér á framfæri varðandi þennan málaflokk.

(Forseti (NicM): Forseti skildi það svo að hv. þingmaður væri að flytja ræðu. Var það andsvar?)

Já, það var það.

(Forseti (NicM): Forseti biðst afsökunar á því, hv. þingmaður, ég sá einn putta, ekki tvo. Biðst afsökunar.)