146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[16:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Væntanlega fellur eftirlit með þeim fyrirtækjum, sem hafa verið að gefa lánshæfismat hér á landi, ekki undir Fjármálaeftirlitið heldur undir fjármálaeftirlit einhverra annarra ríkja þar sem þau eru staðsett. Ég get hins vegar alveg tekið undir þær áhyggjur sem felast í því að hér var ýmsum aðilum veitt lánshæfismat í hæsta gæðaflokki fyrir hrun og kom svo í ljós að þeir urðu gjaldþrota í nánast einu vetfangi. Það er því rík ástæða til þess að hafa eftirlit með þeim aðilum. Það er ástæða til þess líka að hafa það í huga að almennu umgjörðinni hefur verið breytt þannig að við erum með strangari reglur. Félögin sjálf hafa gert til sín strangari kröfur en áður. Ég held því að það sé minni hætta á að við sjáum mistök af þeirri stærðargráðu sem urðu síðast. En áhættan er alltaf einhver og vissulega ástæða til að vera meðvitaður um það.