146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að loks birtast hér aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að hleypa eldri nemendum inn í framhaldsskólana, sem lokað var á með ákvörðun án umræðu við afgreiðslu fjárlaga í tíð síðustu ríkisstjórnar. Að sama skapi fagna ég því ekki að sú leið sem er valin sé sú að opna á lánveitingar til þess hóps svo að hann geti sótt sér dýrt nám hjá einkaaðilum. Mér hefði þótt það eðlilegri leið og sanngjarnari og réttlátari til að tryggja öllum aðgengi að námi að opna einfaldlega hið opinbera framhaldsskólakerfi með því að fjármagna það þannig að það nái utan um þessa nemendur.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur að erfitt sé að spá fyrir um þróun lánveitinga til aðfaranáms. Á síðasta námsári höfðu 240 nemendur leitað til lánasjóðsins eftir lánveitingu. Hvað ætli kosti að fjármagna opinbera kerfið þannig að það geti tekið á móti þeim fjölda? Ég mundi halda að það væri ekkert gríðarlegur kostnaður, sérstaklega þegar við horfum til þess að með því væri samneyslan að létta skuldabagga af þessu fólki sem, ég segi ekki á gamals aldri, eftir 25 ára aldur fer að sækja sér frekari menntun og á þá oft engra annarra kosta völ en að leita í einkaskólana sem hér fá, að tillögu ríkisstjórnarinnar, skotveiðileyfi á þennan hóp, leyfi til þess að lánasjóðurinn hjálpi þessu fólki að skuldsetja sig til að einkaskólar geti fóðrað vasana.

Ég vil spyrja ráðherrann hvort ekki hafi komið til skoðunar í ráðuneytinu að beina athyglinni frekar að hinu opinbera framhaldsskólakerfi, hvort orku okkar og peningum væri ekki betur varið þar.