146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aldrei hef ég kynnst því að hæstv. ráðherra þori ekki að koma upp í síðara andsvar sitt, jafnvel þó að um fullyrðingar hafi verið að ræða. Það sýnir kannski fram á að hæstv. ráðherra er sammála þeim fullyrðingum sem komu fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar.

Ég er svo sem sammála meginmarkmiðum frumvarpsins eins og hæstv. ráðherra reifaði þau áðan. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2011 að hér sé í raun verið að brjóta ákveðna jafnræðisreglu og lög um LÍN. En það sem kemur ekki fram í allri þessari greinargerð er hvaða áhrif þetta mun hafa á lánasafn námsmannanna sem taka þessi lán.

Eins og við sjáum hér eru samtals veitt lán 2015–2016 u.þ.b. 1 milljón á mann, miðað við þær tölur sem eru hér, að meðaltali að sjálfsögðu. Við sjáum því að sumir einstaklingar fá töluvert meira og sumir fá töluvert minna. Við sjáum að námsgjöld fyrir veturinn 2016–2017 í Keili – Háskólabrú fyrir fullt nám eru 457.500 kr. á ári. Þetta er töluverður peningur og ég spyr því hvaða áhrif þetta muni hafa á lánasafnið hjá einstaklingunum. Mun þetta ekki gera að verkum að fólk verður talsvert lengur að greiða af námslánunum sínum? Þá er spurningin hvort ekki væri þjóðhagslega hagkvæmara að gera þessu fólki almennilega kleift að sækja það nám sem því hentar í framhaldsskólum, en ekki eins og staðan er núna varðandi 25 ára regluna, sem hæstv. menntamálaráðherra virðist sammála um að sé til staðar.