146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að taka umræðu um þessa svokölluðu 25 ára reglu. (Gripið fram í.) Það er mál sem menn klára ekki í stuttum andsvörum, (Gripið fram í.) þetta er bara miklu stærra — virðulegi forseti, er hægt að fá hljóð til að svara fyrirspurn.

(Forseti (NicM): Forseti biður hv. þingmenn að hafa hljóð í salnum.)

Ég sé að þetta er töluvert viðkvæmt fyrir hv. þingmanni en ég býðst til að koma í sérstaka umræðu við hv. þingmann um þessa svokölluðu 25 ára reglu. Það eru engar hömlur á inntöku þessa aldurshóps í framhaldsskólana í dag, svo að ég svari fyrirspurn hv. þingmanns áðan. Þau tilmæli sem voru gefin í tengslum við fjárlög fyrir árið 2015 tengdust fyrst og fremst bóknámi. Það hafa aldrei verið nein skilyrði og reglugerðin sem hér er vitnað til frá árinu 2012 hefur ekkert með verknám að gera eða starfsnám.

Ég hef ekki upplýsingar um áhrif breytingarinnar eða lögfestingar á þessum úthlutunarreglum lánasjóðsins á lánasafn viðkomandi einstaklinga sem heyra þarna undir. Ég vil bara leggja áherslu á að með frumvarpinu er verið að búa til lagastoð undir verklag sem hefur verið tíðkað í mjög mörg ár hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og var talið nauðsynlegt að breyta þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út árið 2011. Mér finnst raunar mjög merkilegt að við þeim athugasemdum skuli ekki hafa verið brugðist fyrr, að skjóta lagastoð undir framkvæmd útlána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það er fyrst og fremst það sem þetta mál gengur út á.