146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:58]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað hérna. Ég held að enginn efist um að tilgangur þessarar lagabreytingar sé af hinu góða og til þess að auka kosti ákveðins hóps sem er í námi. Ég fagna því að verið sé að ræða aukið frelsi til náms, í þessu tilfelli er frelsið falið í því að fólk sem hefur lokið umtalsverðu námi í framhaldsskóla getur lokið ígildi stúdentsprófs á einu ári í svokölluðu aðfaranámi, gjarnan kallað Háskólabrú, og fengið námslán til að ljúka slíku námi án tiltölulegra fjármálaáhyggna. Ég segi tiltölulegra af því að ég veit, og ég vona að flestir hér inni viti það líka, að framfærsluviðmið LÍN eru skammarleg, svo að ég orði það pent.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta, með leyfi forseta:

„… samsetning nemendahóps í því námi er ólík því sem er í hefðbundnu námi á framhaldsskólastigi.“

Það er ekki reynsla þess hv. þingmanns sem hér stendur, sem tók stúdentspróf í fjölbrautaskóla, þar sem breitt aldursbil, uppruni og staða nemenda var einmitt sterka hlið skólans. Þessi breiði hópur gerir það að verkum að sjóndeildarhringur allra sem þar stunda nám víkkar og gagnrýnin hugsun eykst. Fjölbreytni innan þessara hópa þroskar vitund og eykur umburðarlyndi. Það er einfaldlega ekki rétt að breitt aldursbil innan framhaldsskóla hafi neikvæð áhrif, líkt og gefið er í skyn í greinargerð frumvarpsins.

Enn fremur segir í greinargerð að þessi lagabreyting muni gefa ákveðnum hópi einstaklinga, og ég legg áherslu á ákveðnum hópi, aukin tækifæri. Hér eru nefnilega lykilorðin „ákveðnum hópi einstaklinga“. Mér verður óneitanlega hugsað til hins tíðrædda frelsis sem þessi ríkisstjórn virðist halda mikið upp á. Hvar er frelsið í því að gera framhaldsskólum ekki kleift að taka inn nemendur eldri en 25 ára? Hvar er frelsið í því að snúa upp á hendur fólks þannig að það hafi engan annan kost en að klára framhaldsskólanám í Háskólabrú, sem er ígildi stúdentsprófs en samt ekki.

Enn um ákveðinn hóp einstaklinga, með leyfi forseta, en í greinargerðinni stendur einnig:

„Nemendur sem hefja aðfaranám þurfa því að hafa lokið umtalsverðu námi á framhaldsskólastigi …“ — þ.e. til að geta talist gjaldgengir í hið fyrrnefnda.

Augsýnilega þyrfti það umtalsverða nám að hafa átt sér stað fyrir 25 ára aldur. Nú veit ég ekki með hæstv. menntamálaráðherra en ég sé fyrir mér ansi marga einstaklinga sem munu þarna lenda mitt á milli, einmitt sá hópur sem fellur ekki undir hinn útvalda og ákveðna hóp sem þessi lagabreyting miðar að.

Enn höldum við áfram:

„Að loknu aðaranámi mun einstaklingur hafa kost á því að stunda háskólanám við þann skóla sem aðfaranámi var lokið við. Að jafnaði er ekki í boði að stunda háskólanám við aðra skólastofnun.“

Það er að mínu mati helsti galli aðfaranáms eða Háskólabrúar af því að valið um háskólanám skerðist. Frelsi til að skipta um skoðun skerðist. Gert er ráð fyrir því að allir einstaklingar innan þessa ákveðna hóps muni alfarið hafa gert upp hug sinn og að ómögulegt sé að upp komi aðstæður sem reyndar koma mjög gjarnan upp í þroskaferli nemenda sem eru í háskóla, einmitt það að skipta um skoðun. Það er miklvægt að hafa það frelsi að skipta um skoðun. Ef slíkt kæmi upp er neminn í vandræðum. Mikið væri gott ef nemandinn hefði fengið tækifæri og frelsi til að ljúka námi sínu í framhaldsskóla og taka próf til stúdents sem væri gjaldgengt í alla háskóla. En það er víst einungis fyrir þá sem ganga hina beinu og réttu braut normsins.

Enn fremur um frelsi. Samkvæmt frumvarpinu verður lánveitingum til nemenda sem vilja taka aðfaranám í erlendum háskólum hætt. Það er nú allt frelsið sem þetta frumvarp boðar. Falskt frelsi sem hentar þessari ríkisstjórn og ákveðnum hópum sem þóknast henni, ekki öllum hópum, ekki fjölbreytileikanum og ekki öllum einstaklingum. Satt að segja hef ég illan bifur á þeim breytingum sem eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Tilfinning mín er sú að verið sé að víkka vettvang einkavæðingar í menntakerfinu, líkt og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir reifaði áðan.

Hverra hagsmunir eru það, virðulegi forseti? Hverra hagsmuna er raunverulega verið að gæta með því að setja reglugerð um að framhaldsskólar fái ekki greitt með nemendum í bóknámi eldri en 25 ára? Og svo er það lagabreyting sem eykur kosti ákveðinna hópa en skerðir frelsi heildarinnar til raunverulegs vals um menntun sína.