146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa.

412. mál
[17:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu, þ.e. eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því er lagt til að lögfestar verði reglur um aukið eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Rétt aflaskráning er ásamt ábyrgri fiskveiðistjórn mikilvægasta stoðin í fiskveiðistjórnarkerfinu. Löndun afla fram hjá vigt eða röng vigtun er eitt alvarlegasta brot sem um er að ræða að mínu mati í kerfinu. Einstakar útgerðir og fiskiskip hafa takmarkaðar aflaheimildir og ræðst það af skráningu í aflaskráningarkerfi Fiskistofu hversu mikið er dregið af aflamarki skips eftir tegundum við hverja löndun. Þá eru niðurstöður skráningarinnar einnig notaðar sem grunnur í vísindalega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna eins og hún heitir fullu nafni núna, og því mikið í húfi að afli sé rétt skráður. Þetta snýst líka um traust á kerfinu þannig að allir sem koma að því, sjómenn, útgerðarmenn, fiskvinnslufólk og aðrir, viti um hvað málið snýst þegar afla er landað. Traust vottunarfyrirtækja á íslensku fiskveiðistjórnarkerfi þarf að vera skýrt.

Samkvæmt núgildandi reglum er heimilt að ljúka vigtun á hafnarvog með 3% ísfrádrætti ef ís er í aflanum. Niðurstaðan er síðan skráð í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Hafi viðkomandi fiskvinnsla eða fiskmarkaður hins vegar endurvigtunarleyfi skal vigta afla á hafnarvog með ís og síðan má flytja aflann til endurvigtunar, eins og við vitum, í húsnæði fiskvinnslu eða í húsnæði fiskmarkaðar sem fengið hefur leyfi til endurvigtunar afla. Við endurvigtun er ísinn skilinn frá afla og þyngd fisksins fundin. Vigtunarleyfishafarnir eru 121, þeir eru 102 með endurvigtunarleyfi, 16 með heimavigtunarleyfi og þrjú vigtunarleyfi eru hjá sjálfstæðum aðilum sem hafa heimild til að annast vigtun á afla við löndun í umboði og á ábyrgð viðkomandi hafnaryfirvalda. Leyfishafar eru fiskvinnslur og fiskmarkaðir. Um 45% af heildarafla eru endurvigtuð á hverju fiskveiðiári.

Fiskistofa hefur staðfest að í einhverjum tilvikum komi í ljós lægra íshlutfall þegar staðið er yfir endurvigtun en þegar ekkert opinbert eftirlit er viðhaft. Þannig er fyllilega rökstuddur grunur um að aflamagn sé í þessum tilvikum skráð minna en það síðan raunverulega er. Nauðsynlegt er því að styrkja heimildir Fiskistofu til að hafa virkara eftirlit með vigtunarleyfishöfum þegar rökstuddur grunur er um ranga skráningu íshlutfalls.

Markmið frumvarpsins er að tryggja betri og nákvæmari skráningu í aflaskráningarkerfi Fiskistofu með því að styrkja heimildir Fiskistofu til að hafa eftirlit með vigtunarleyfishöfum þegar þessi rökstuddi grunur um ranga skráningu á íshlutfalli í afla skips er til staðar.

Til að ná fram því markmiði er því lagt til að Fiskistofa skuli auka eftirlit sitt hjá vigtunarleyfishafa ef í ljós kemur við eftirlit að verulegt frávik er á íshlutfalli í afla skips í viðkomandi fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skipsins í fyrri löndunum. Komi til aukins eftirlits Fiskistofu ber vigtunarleyfishafinn þann kostnað sem af þessu hlýst. Þannig mun aukið eftirlit eingöngu verða hjá þeim sem eru með veruleg frávik í íshlutfalli og munu þeir bera kostnað þess eftirlits. Þeir sem hafa hlutina í lagi, sem eru langflestir, þurfa því ekki að óttast þessar aðgerðir og þetta eftirlit. Slík regla hefur engu að síður varnaðaráhrif og eykur þannig á vandvirkni við vigtun og skráningu sjávarafla. Ég vil ítreka að hér er mikið í húfi, trúverðugleiki íslensks fiskveiðistjórnarkerfis, þannig að við vitum hvað raunverulega kemur að landi þannig að m.a. Hafró geti sett fram sína ráðgjöf með allan grunn á hreinu.

Hið aukna eftirlit felst einnig í því að Fiskistofa notar upplýsingar um fyrri landanir sem skráðar eru þegar opinbert eftirlit er ekki viðhaft. Er þetta nýmæli og verður að teljast mikilvægt skref í að auka traust á endurvigtun.

Einnig er lagt til að ef ítrekað kemur í ljós verulegt frávik á íshlutfalli í afla skips í tiltekinni fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skips í fyrri löndunum skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfið í allt að eitt ár. Afturköllun á vigtunarleyfi er eðlileg aðgerð í ljósi þess trausts sem stjórnvöld veita vigtunarleyfishöfum og mikilvægis réttrar aflaskráningar.

Að lokum er lagt til að bætt verði við lið í gjaldskrárheimild í 5. gr. laga um Fiskistofu til þess að heimild Fiskistofu til gjaldtöku vegna aukins eftirlits verði algjörlega ótvíræð. Í ljósi þess hversu mikilvægu hlutverki í fiskveiðistjórnarkerfinu vigtunarleyfi gegna og hafa og þess trausts sem stjórnvöld sýna er nauðsynlegt að unnt sé að hafa skilvirkt eftirlit með þeim aðilum sem rökstuddur grunur er á að séu að skrá meira íshlutfall í afla en í rauninni er.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirra sem fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni frumvarpsins í heild sinni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.