146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa.

412. mál
[17:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að þetta eru að vissu leyti íþyngjandi aðgerðir þannig að menn verða að gæta meðalhófs. Engu að síður, eins og hv. þingmaður kom inn á í lokin, er svo mikið undir. Trúverðugleiki fiskveiðistjórnarkerfisins okkar er undir og þá verða allir aðilar sem eru innan kerfisins að bera sig rétt að og skila réttum upplýsingum, til að við getum byggt áfram á því sem er lykillinn í okkar kerfi og er stolt okkar út á við, þ.e. sjálfbær nýting byggð á grunni vísindalegrar ráðgjafar. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli og það eru ítrekaðar vísbendingar til staðar. Ég er almennt ekki hrifin af mjög íþyngjandi eftirliti og þetta er að hluta til íþyngjandi. Af hverju er það? Af því að Fiskistofa hefur trekk í trekk fengið mjög sterkar vísbendingar um að ákveðnar útgerðir, þeir sem landa, fari ekki nákvæmlega eftir þeim lögum og reglum sem við höfum sett. Þess vegna þurfum við að styrkja eftirlitið. Ég vil líka undirstrika að sjómenn hafa ítrekað bent á þetta, það kom upp í sjómannaverkfallinu. Þetta er bara upp á að tryggja trúverðugleika, að verið sé að gera þetta rétt.

Kostnaðurinn, svo að ég fari aðeins út í hann, er náttúrlega greiddur af þeim sem sinna eftirlitinu, þ.e. af þeim sem eru undir eftirliti. Þeir munu greiða kostnaðinn sem af þessu hlýst og ég held að það verði til þess að menn vandi sig. Þetta leiðir til vandaðri vinnubragða við löndun afla. Varðandi fjármuni til Fiskistofu — hv. þingmaður er aðeins að kveikja í mér — þá verð ég hér á fimmtudaginn kl. 17.00 og þá mun ég fara yfir fjármuni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, bæði til Fiskistofu og Matvælastofnunar en ekki síst til Hafrannsóknastofnunar, sem er grundvallarrannsóknastofnun okkar innan fiskveiðistjórnarkerfisins, byggir upp þann grunn sem við höfum gert sterkan og þar verðum við að vanda okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)