146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa.

412. mál
[17:15]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef lítinn skilning á ætlun löggjafans í þessum efnum. Hér segir í greinargerð að alvarlegasta brotið í kerfinu sé röng skráning afla eða undanskot. Tekið er síðan fram að útilokað sé að hafa eftirlit með allri endurvigtun og jafnframt að þetta byggist allt á trausti.

Forseti. Þetta traust er löngu horfið og hjákátlegt að ætla að byggja upp með tveimur starfsmönnum og hugsanlega, mögulega einhverjum aðgerðum þeirra. Samkvæmt greinargerð hefur Fiskistofa staðfest að í vissum tilvikum komi í ljós að lægra íshlutfall er til staðar yfir endurvigtun en síðan þegar ekkert eftirlit er haft er rökstuddur grunur um að aflamagn sé skráð minna en það raunverulega er. Lögin eins og þau standa núna gera ráð fyrir því að fiskvinnslur og fiskmarkaðir hafi leyfi til að endurvigta afla, aðilar sem hafa beina hagsmuni af því að skráning sé ekki til fyrirmyndar.

Virðulegi forseti. Við höfum allt sem við þurfum til að taka á þessu vandamáli með auknu rafrænu eftirliti og með lagasetningu. Ef við festum í lög 3% ísprósentu bindum við samhliða enda á endurvigtunarleyfi fiskvinnslu og fiskmarkaða. Meira þarf ekki til. Með því leysir frjáls markaður vandamálið sem er til staðar og það er óvefengjanlegt með rökstuddum grun. Með því að há ísprósenta sé til staðar í afla fram yfir þau lögbundnu 3% sem ég tala fyrir missir þessi aðili viðskipti vegna þess að enginn sem ætlar sér fiskvinnslu er til í að borga 300 kr. fyrir kíló af ís.

Jafnframt hefur enginn sem stundar fiskvinnslu áhuga á því að fá fisk sem er ókældur þannig að sá sem veiðir fiskinn hefur bæði hagsmuni af því að ísa hann nægilega mikið og nægilega lítið samtímis. Síðan er hægt að ísa fiskinn að vild fyrir flutning og aðra þætti virðiskeðjunnar. Ef raunverulegur áhugi er á því að binda enda á framhjálandanir ættum við að staðla kör, fara fram á að þau séu merkt með örflögum og þau vigtuð með reglubundnum hætti og raunvigt skráð á örflöguna. Rafræn vöktun á hafnarvigt er síðan um að draga vigt karanna frá heildarþyngd fisks.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir á hafnarvog er að það er mikil skekkja í mælingum í vigt íláta þar sem vigt íláta er sirkuð út. Þetta er eitthvað sem er tæknivæðingunni auðvelt viðfangsefni og þar sem við getum fylgst með vöru og framleiðslu alla leið til neytenda, allt ferðalagið, hljótum við að geta beitt sömu tækni við þetta viðfangsefni.

Í 3. lið greinargerðarinnar, meginefni frumvarpsins, stendur að efni frumvarpsins sé eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Jafnframt er talið að ekki sé hægt að hafa eftirlitið fullnægjandi, m.a. vegna kostnaðar.

Í 5. lið greinargerðarinnar er talað um að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem er samruni Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva, hafi talið að með frumvarpinu værum við að færa Fiskistofu of mikið vald á hendur á meðan Landssamband smábátaeigenda og síðan samtök sjómanna töldu málið til mikilla bóta.

Virðulegi forseti. Ég tel engin rök fyrir því að halda kerfinu eins og það er í dag. Ég tel að lausn fælist í því að fastsetja ísprósentu til þriggja ára og fjarlægja endurvigtunarleyfin um sömu hríð. Við getum fengið út nokkuð raunsanna mynd af endurvigtuninni. Með því að mæla útfluttan fisk samhliða og síðan það sem við tökum úr sjó getum við með nokkurri vissu séð hve mikil áhrif þetta hefur á undanskot með vísan til þess að þessi tölulegu gögn liggja fyrir til margra ára aftur í tímann. Í frumvarpinu eins og það er uppsett í dag ætlar löggjafinn með eftirliti í mýflugumynd að stöðva vandamál sem grefur undan trúverðugleika fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég spyr því miðað við uppsett frumvarp, eins og það er í dag: Væri ekki hægur leikur, fyrst eftirlitið er af skornum skammti, fyrir alla aðila máls að hugsanlega auka við undanskotin vitandi það að aðeins 1,6% þeirra væru undir eftirliti á hverjum tíma?