146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta þýðir að við erum að leggja til að gefið verið í í uppbyggingu ferðamannastaða heilt yfir. Þessi breyting felur í sér að við erum að reyna að auka skilvirkni og koma í veg fyrir það flækjustig að stofnun á fjárlögum í einu ráðuneyti sé að sækja um í samkeppnissjóð sem er líka á fjárlögum í öðru ráðuneyti. Það er verið að útdeila þessum styrkjum heldur seint fyrir hvert sumar, svo er það bundið til eins árs í senn en ekki yfir árið.

Við erum með landsáætlun sem er þetta nýja fyrirbæri og er mjög gott plagg og mikil og góð vinna þar unnin. Það er mjög gott að það sé komin heildarsýn yfir uppbyggingarþörf á ferðamannastöðum yfir landið. Framkvæmdasjóðurinn er síðan samkeppnissjóður sem fær aðeins breytt hlutverk. Ríkissvæðin eru alveg tekin út og sett inn í umhverfisráðuneytið. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er þá fyrir sveitarfélög og einkaaðila og hlutverkið svolítið útvíkkað þannig að einkaaðilar t.d. fá styrk ekki eingöngu vegna þess að verkefnið snýr að öryggi eða náttúru heldur geta þeir líka fengið styrk til að stuðla að því markmiði stjórnvalda að dreifa ferðamönnum um landið, koma upp einhverjum seglum um landið eða hvað svo sem annað það er.

Við erum að setja fjármuni í landsáætlun og sömuleiðis aukna fjármuni í framkvæmdasjóðinn. Þetta saman þýðir töluvert aukna fjármuni í uppbyggingu ferðamannastaða.