146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig, það er gott að heyra að ég skildi það rétt af því að það segir í greinargerðinni, ég vona að ég sé ekki að fara út fyrir efni þessa frumvarps, með leyfi forseta:

„Ef frumvarpið verður að lögum þarf að fjármagna framkvæmdir á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón ríkisins beint af fjárlögum.“

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er sú upphæð komin inn í fjárlögin? Ég veit að það er á forræði hæstv. umhverfisráðherra eins og hæstv. ráðherra kom inn á, en af því að komið er inn á þetta í greinargerðinni væri dálítið gaman að sjá heildartöluna yfir það sem ætti að auka við uppbyggingu á ferðamannastöðum annars vegar í eigu hins opinbera og svo með því að halda þessari upphæð til sjóðsins næstu fimm ára sem eru 766 millj. kr. á ári. Ég hygg að sjóðurinn hafi oft átt í erfiðleikum með að koma út öllum fjármunum á hverju ári, er það ekki rétt? Það hefur reynst erfitt sökum þess að erfitt hefur verið að ráða fólk og komast í framkvæmdir. Það er gott að þetta sé komið á nokkuð fastara form, hygg ég.

Rétt í lokin langar mig að spyrja út í fækkun í stjórn úr fjórum í þrjá. Einhvern tímann var manni kennt í félagsfræði um að það ætti alltaf að vera oddatala í stjórn, þannig að það er kannski hið besta mál. En hér segir í frumvarpinu að nokkrir umsagnaraðilar hafi bent á að rétt væri að halda sama fjölda eða fjölga í fimm. Svo segir, með leyfi forseta:

„Rétt þykir hins vegar, í ljósi breytts hlutverks sjóðsins og gildissviðs laganna, að fækka stjórnarmönnum í þrjá …“

Mér sýnist það gerast að fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar missi annan af sínum tveimur fulltrúum, hann hafi bara einn. Hæstv. ráðherra gæti aðeins útskýrt hvernig það fer saman við það sem stendur í greinargerð í ljósi breytts hlutverks sjóðsins og gildissviðs laganna.