146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég þakka ráðherra fyrir innleggið og hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir innlegg hans sömuleiðis. Mér finnst þetta frumvarp í heild til bóta þegar ég lít yfir það. Það er mjög eðlilegt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að ríkið sé ekki lengur umsóknaraðili í þennan ágæta sjóð. Þá komum við að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminja, þeim langa, langa titli. Þar er vissulega óljós fjármögnun þannig að ef þar vantar fé, eins og hæstv. ráðherra kom að, þarf vissulega að huga að því hvaðan á það að koma. Vegna þess að ef við erum búin að blanda saman, eins og ég skal koma að á eftir, gistináttagjaldinu sem rennur núna óbreytt til ríkisins þá er vandséð hvaða aðrir fjármunir eigi að koma þarna inn í landsáætlunarsjóðinn sem ríkið hefur aðgang að, hvort sem það er varðandi þjóðgarða eða aðra staði.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, fjármunirnir ganga til sveitarfélaga og einkaaðila, eins er það til bóta. Það eru sett ákveðin skilyrði sem eru þau að staðir sem hljóta styrk úr þessum sjóði eru opnir gjaldfrjálst, eins og kveðið er á um í lögum og reglugerðum, líkt og segir í textanum. Þó geta einkaaðilar innheimt gjald. Nú hefur það verið staðfest í lögfræðiáliti mjög nýlega að einkaaðilar, þá er tekið dæmi af Helgafelli á Snæfellsnesi, hafi leyfi til þess að gera það.

Í þessu felst ákveðinn vandi sem verður augljósari með hverju ári, sem ég vil kalla aðgengisvanda, sem felst í því að ferðamenn þurfa að komast í gegnum heimalönd á staði, geta verið einhverjir fallegir auðveldir staðir aðgengis en það geta líka verið fjallstindar sem eru æ vinsælli meðal útivistarfólks. Þá er það þannig að heimalönd girða svæðið á milli þjóðvega, segjum við, og viðkomandi fjalls. Við þurfum ekki að fara lengra en upp að Esju til að sjá það. Það er orðið mjög erfitt oft, ég hef sjálfur af því reynslu, að komast að uppgöngum á þessi fjöll, einfaldlega vegna þess að menn þurfa að fara í gegnum heimalönd. Það er að sjálfsögðu óheimilt í raun og veru og ekki vel séð, þetta eru ekki almenningar, þetta eru ræktarlönd jafnvel. Það hefur mjög lítið verið gert til þess að koma einhverri reglu á nákvæmlega. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að fara að skoða þann vanda. Það er einmitt hægt að nota að hluta til fjármuni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þess að tryggja aðgengi gegnum heimalönd. Það er oft ekkert annað en príla og girðing og lítill stígur og einhverjar vegmerkingar og annað slíkt sem þarf. Þetta þarf ekki að vera flókið. Sums staðar hafa reyndar heimamenn sjálfir eða eigendur komið einhverjum skikk á þetta, annaðhvort algjörlega á eigin kostnað eða reynt að sækja um það til Framkvæmdastjóðs ferðamannastaða, eins og í tilfelli Helgafells, fengið tvær neitanir og endað á því að fara að rukka 400 kr. á mann.

Þessi aðgengisvandi er mjög algengur erlendis, t.d. í Bretlandi og Skotlandi, Írlandi, jafnvel í Þýskalandi. Þetta er hluti sem höfum eiginlega látið dankast. Ég get nefnt mörg, mörg dæmi um t.d. fjöll í nágrenni Reykjavíkur sem eru mjög vinsæl þar sem þetta er orðið ákveðið vandamál, jafnvel þannig að menn hafa amast við umferð í gegnum heimalönd og eðlilega, en á því þarf að taka.

Varðandi fjáröflunarmálið með þær 776 milljónir á ári sem ganga úr gistináttagjaldi til ríkissjóðs þá er það vissulega gleðilegt, en flækjan varðandi landsáætlunina og fjármögnun hennar er enn til staðar að mínu mati.

Það er eitt í þessu varðandi gistináttagjaldið sem ég hef talað fyrir alla tíð eftir að ég komst á þing og það er það að gistináttagjaldið verði hlutfallstala af verði gistingar en ekki föst upphæð, 300 kr. eins og nú er. Það er mjög eðlilegt að gisting sem býður upp á einfalt rúm einhvers staðar úti í hlöðu sé ekki endilega að greiða sama gjald og lúxusgisting á sveitahóteli eða hóteli í bænum. Ég held að þetta sé sanngjörn krafa og myndi eflaust auka verulega tekjur hins opinbera í sjóði ferðamanna.

Það eru svo sem til aðrar leiðir. Við getum nefnt komugjöld eða brottfarargjöld, en það er efni í allt aðra umræðu. Hingað til hafa framlögin úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í raun og veru verið allt of lág. Þetta eru kannski 500–600 milljónir á ári. Fyrrum var 50% girðingin allt of há, síðan kom 20% girðingin. Ég tel að hún sé enn þá allt of há og að í raun eigi framlag sveitarfélags að vera í einhverju hlutfalli við stærð þess. Skeiða- og Gnúpverjahreppur á ekki endilega að leggja fram sömu prósentutölu og stórt sveitarfélag, við skulum segja Akureyrarbær eða eitthvað slíkt. Það þarf að endurskoða líka.

Hugleiðingar mínar eða ábendingar eru gerðar með góðum hug til þess að þetta frumvarp geti í meðförum hv. nefndar tekið breytingum eða á vegum hæstv. ráðherra sjálfs. Ég hef þar með lokið máli mínu.