146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[17:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um lyfjastefnu til ársins 2022.

Sem heilbrigðisráðherra vil ég leggja sérstaka áherslu á tryggt aðgengi sjúklinga að nauðsynlegum lyfjum og jafnframt að lyfjakostnaði hins opinbera sé haldið innan fjárheimilda. Eins og segir í inngangi þingsályktunartillögunnar er meginmarkmið hennar að tryggt verði aðgengi að lyfjum, gæði, virkni og öryggi lyfja og skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja. Í þessu felst líka krafa um að gætt sé hagkvæmni og skynsemi í notkun lyfja, einkum þeirra dýrustu og vandmeðförnustu. Einnig er mikilvægur liður í þessu að sporna við ofnotkun og misnotkun lyfja enda felur hvort tveggja í sér sóun og skaðsemi fyrir fólk.

Þingsályktunartillagan sem ég legg hér fram tekur mið af þessu auk þess sem hún tekur mið af stefnumörkun vegna nýrra laga um opinber fjármál og nær hún því til jafn langs tíma og fjármálaáætlun, þ.e. til ársins 2022.

Í fyrra lagði þáverandi heilbrigðisráðherra fram þingsályktunartillögu um sama efni sem ekki náði fram að ganga. Þeirri þingsályktunartillögu fylgdi lyfjastefna til 2020 sem ráðherra hafði samþykkt fyrir sitt leyti en er ekki lögð fram sem fylgirit þessarar þingsályktunartillögu enda má segja að stutt sé eftir af hennar líftíma. Hún stendur þó ágætlega fyrir sínu og þar má finna ítarefni og nánari rökstuðning fyrir áherslum og markmiðum þingsályktunartillögunnar, en við gerð hennar var m.a. tekið mið af eldri lyfjastefnu sem mörkuð var árið 2007, áherslum heilbrigðisyfirvalda í lyfjamálum, stefnu grannþjóða á þessu sviði og þróun lyfjamála á liðnum árum.

Eins og fyrri lyfjastefna tekur lyfjastefnan einnig mið af tilskipunum Evrópusambandsins, samþykktum Evrópuráðsins, markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO um lyf og því markmiði lyfjalaga sem felur í sér að tryggja landsmönnum nægt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni.

Í þessari þingsályktunartillögu er, eins og í þeirri fyrri, lögð áhersla á að lyf séu á viðráðanlegu verði og að greiðsluþátttaka af hálfu hins opinbera í kostnaði notenda þeirra sé nægileg svo stuðlað sé að sem mestum jöfnuði og jöfnu aðgengi. Lögð er áhersla á að hindranir komi ekki í veg fyrir eðlilega samkeppni á markaðnum og unnið verður að bættu aðgengi að lyfjum á landsbyggðinni, sérstaklega á smæstu stöðunum þar sem þjónusta er takmörkuð, og kannað verði hvort æskilegt sé að heimila að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum.

Þá er breyting frá fyrri þingsályktunartillögu sem snýr að heimild til sérmenntaðra hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um takmarkaðan rétt til að ávísa ákveðnum lyfjum. Á undanförnum árum hefur sérmenntuðum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum í nágrannalöndunum verið veittur takmarkaður réttur til ávísunar á ákveðnum lyfjum sem þeir í starfi sínu þurfa að veita sjúklingunum. Embætti landlæknis og ýmsir aðrir aðilar hafa ályktað um að sams konar takmarkaðar heimildir til ávísunar lyfja verði teknar upp hér á landi og því er að því stefnt.

Önnur nýjung í þessari tillögu felst í áherslu sem lögð er á öryggi og gæði dýralyfja sem er ekki síður mikilvægt en öryggi og gæði lyfja fyrir menn. Talið er nauðsynlegt að bæta rafræna skráningu á notkun dýralyfja og bregðast þannig við aukningu á lyfjaónæmi vegna notkunar sýklalyfja. Þetta er sem betur fer ekki mikið vandamál hér á landi eins og við þekkjum víða erlendis, en full ástæða er til þess að bregðast við fyrir fram.

Í þingsályktunartillögunni er líka bent á að heilbrigðisútgjöld vaxa hraðar en heildarútgjöld hins opinbera og að útgjöld vegna nýrra lyfja vaxi hraðar en útgjöld vegna almennra lyfja og annarra heilbrigðismála.

Svo ég vitni í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Væntingar sjúklinga til meðferðar með nýjum, dýrum lyfjum aukast enn hraðar og ljóst er að erfiðara og erfiðara verður að mæta auknum kostnaði vegna þessarar þróunar. Helstu áskoranir lyfjastefnunnar og í raun lyfjastefnu allra landa verður því í vaxandi mæli að skapa sátt um innleiðingu nýrra lyfja og brúa bilið milli væntinga, vísindalegrar framþróunar og fjárheimilda.“

Flest ríki, bæði fámenn og fjölmenn, rík og fátæk, eiga í vaxandi mæli í erfiðleikum með að tryggja aðgengi að nýjum og dýrum lyfjum og gera áætlanir um notkun þeirra innan fjárheimilda. Alþjóðasamtök hvetja til samstarfs milli landa um lausnir og ljóst er að lítið land eins og Ísland ræður ekki eitt og sér við ýmislegt sem talið er nauðsynlegt í stærri löndum, svo sem forspá um ný lyf sem á ensku er nefnt, með leyfi forseta, „horizon scanning“ og hagfræðilegt mat á lyfjum. Því er nauðsynlegt að fylgjast vel með og taka þátt í alþjóðasamstarfi og læra af þeim löndum sem besta árangri ná, sérstaklega fyrir lítið land eins og Ísland.

Ég hef á þeim stutta tíma sem ég hef starfað sem heilbrigðisráðherra lagt áherslu á, líkt og forverar mínir á undanförnum árum, að ná fram samstarfi í lyfjamálum við aðrar þjóðir í þeim tilgangi að bæta aðgengi að lyfjum og ná fram aukinni samkeppni til jafns við stærri lyfjamarkaði. Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar sem haldinn var í Ósló í síðustu viku kom norrænt samstarf í lyfjamálum til umræðu og ljóst er að pólitískur vilji er til þess á öllum Norðurlöndum að auka slíkt samstarf, ekki síst er varðar innkaup og útboð lyfja. Nú þegar hafa Norðurlöndin stofnað samstarfsvettvang vegna þessa líkt og Benelux-löndin hafa einnig gert. Ég vænti þess að norrænt samstarf um innkaup og útboð lyfja muni byrja að skila árangri nú þegar á þessu ári.

Um þessar mundir er unnið að frumvarpi til nýrra lyfjalaga innan ráðuneytisins. Það var reyndar sagt í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að við myndum leggja frumvarp til nýrra lyfjalaga fyrir þingið nú í vor, en það eru litlar líkur á því þar sem nauðsynlegt var að senda það frumvarp í tæknilegt tilkynningarferli á Evrópusvæðinu sem tekur nokkra mánuði. Það er því hæpið að það náist fyrir þinglok í vor en við ráðgerum að leggja frumvarpið fram á haustþingi 2017 og vonandi strax í upphafi haustþings. Sú vinna tekur tillit til þeirra sjónarmiða og markmiða sem fram koma í þingsályktunartillögu þessari.

Virðulegur forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hæstv. velferðarnefndar.