146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[17:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra af því að það virðist vera eitt meginmarkmið þessarar lyfjastefnu að tryggja aðgengi að lyfjum. Það kemur fram í greinargerð að ekki sé nóg að lyf séu ávallt fáanleg á markaði heldur þurfi þau að vera á viðráðanlegu verði og tryggt að Sjúkratryggingar Íslands taki virkan þátt í kostnaði notenda þeirra svo stuðlað sé að sem mestum jöfnuði. Svo er ekkert í stefnunni sjálfri um að koma til móts við fólk, um að hækka greiðsluþátttöku ríkisins til þess að gera fólki kleift efnahagslega að nálgast lyfin. Það er ekki nóg að lyfin séu til ef fólk sem er veikt og þarf á þeim að halda hefur ekki efni á því að kaupa þau.

Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi komið til tals og hvers vegna það sé ekki í stefnunni og hvort hæstv. ráðherra telji ekki að nauðsynlegt sé að koma til móts við vandann á einhvern hátt. Nú koma æ oftar upp raddir í samfélaginu sem tala um það gíðarstóra vandamál að við erum í raun og veru að setja veikt fólk á hausinn þegar það þarf mest á stuðningi samfélagsins að halda. Það er að koma nýtt greiðsluþátttökukerfi 1. maí en þar er ekki tekið á lyfjakostnaði. Stór þáttur í kostnaðinum eru lyfin. Hvernig ætlum við að koma til móts við fólk þannig að við látum ekki veikt fólk vera í kvíðakasti vegna fjárhagsáhyggna þegar það þarf mest á því að halda að geta verið í ró og næði til að ná heilsu aftur?