146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það er vissulega rétt að grunnstef í þingsályktuninni um lyfjastefnuna er einmitt aðgengi að nauðsynlegum lyfjum. Ástæðan fyrir því að ekki er sérstaklega farið inn í kostnaðarþátttökuna á annan hátt en með þessari almennu stefnu er sú að það er ákveðið á endanum í fjárlögum og fjárheimildum ríkisins til málaflokksins. Þar erum við sammála, ég og þingmaðurinn, um að það eigi að gera betur. Það er kostnaðarþátttökukerfi þegar kemur að lyfjum þar sem er ákveðið þak við lyfjakostnaði. Til allrar hamingju eru allra dýrustu lyfin sem eru notuð á spítölum afgreidd þar almennt, þannig að sjúklingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af kostnaðinum.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að lækka greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Lyf eru ekki undanskilin þar. Ástæðan fyrir því að það er ekki nákvæmar orðað í lyfjastefnunni er sú að fjárheimildirnar eru ákveðnar af Alþingi í fjárlögum. Fjárheimildir koma síðan fram í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.