146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með þingmanninum að slíkt ætti alla vega ekki heima sérstaklega í lyfjastefnunni, en aðgengi sjúklinga og einstaklinga að upplýsingum og um rétt sinn á vissulega heima í almennri heilbrigðisstefnu, ég tek undir það. Eins og hefur oft komið fram í máli mínu í þingsal stefni ég að því að vinna að slíkri almennri heilbrigðisstefnu. Þetta er eitt af málunum sem mætti gjarnan koma inn í þá vinnu.

Það er ekki alveg svo að það séu engar upplýsingar eða engir aðilar sem sjúklingar geta leitað til, auðvitað eru bæði í heilbrigðiskerfinu en líka hjá embætti landlæknis t.d. og síðan umboðsmanni Alþingis möguleikar fyrir einstaklinga til að leita réttar síns og fá upplýsingar. Ég er sammála hv. þingmanni um að það megi alltaf gera betur. Heilbrigðiskerfið er mjög flókið. Heilbrigðismál eru almennt mjög flókin fyrir þá sem ekki þekkja. Það er full ástæða til að tryggja það að upplýsingagjöf sé góð, að hún sé skýr og skiljanleg fyrir fólk sem hefur, eins og hv. þingmaður benti á, um nóg annað að hugsa.