146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2022. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Þetta er rosalega mikilvægt mál. Annars vegar er það vegna þess að lyf skipta fólk í nútímasamfélagi mjög miklu máli, vegna þess að aðgangur að réttum og viðeigandi lyfjum getur bæði bjargaði lífi fólk og breytt lífi fólks algjörlega. Svo er þetta líka mikilvægt mál vegna þess að það er þannig að lyf eru því miður oft og tíðum dýr, það er alveg sama hvort við erum að tala um fyrir ríkið að greiða eða fyrir einstaklinginn sem þarf að nota lyfin.

Þess vegna sakna ég þess að hér sé ekki kveðið fastar að orði þegar kemur að kostnaðarþátttöku ríkisins, sem er bara hin hliðin á sama peningi, sem er þá kostnaðarþátttaka sjúklingsins. Hæstv. ráðherra talaði um það í framsögu sinni að kostnaðarþátttaka ríkisins þyrfti að vera nægileg. Það getur verið svolítið misjafnt eftir því hver horfir á hvað er nægilegt hverju sinni. Ég hlustaði á hæstv. ráðherra útskýra það í andsvari við hv. þm. Halldóru Mogensen, sem vék að þessu efni, að ekki væri farið inn á kostnaðarþátttöku í þessari stefnu nema með almennum hætti því að það yrði gert í fjárlögum. Gott og vel, það verður auðvitað gert í fjárlögum. En ég sakna þess engu að síður að þessa sjái ekki stað í fjármálaáætluninni. Það hefði að mínu mati verið ákveðin undirbygging fyrir það sem kemur í fjárlagafrumvarpinu þegar það svo kemur fram.

Í fjármálaáætluninni fyrir árin 2018–2022 segir, svo dæmi sé tekið, á bls. 308, að eitt af grundvallarmarkmiðunum með lyfjalögum — og ég veit að við erum að tala um lyfjastefnu en þetta tengist — sé að sporna gegn óhóflegri notkun lyfja og halda kostnaði í lágmarki. Það er tiltekið hérna. Ég hefði gjarnan viljað sjá fastar kveðið að orði hvað varðar fjármögnun ríkisins og hefði talið að það hefði undirbyggt betur hver stefna hæstv. ríkisstjórnar er í þessum málum. Eins og er erum við svolítið í lausu lofti með þetta og verðum að reiða okkur á góð orð hæstv. ráðherra í þeim efnum og munum örugglega rifja þau upp í einhverju samhengi.

Það er fleira sem skiptir máli en krónur og aurar. Þó svo að það séu mikilvægt atriði þegar kemur að aðgengi að lyfjum þá skiptir líka máli hvernig aðrir hlutir eru. Þar finnst mér sérstaklega mikilvægt það sem fjallað er um í 2. lið þessarar tillögu sem varðar öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónustu. Það er talað um hvort hægt sé að auka hagkvæmni í lyfjanotkun og bæta meðferðarheldni o.s.frv. og að sérstaklega verði litið til þess — og það er reyndar líka aðeins fjallað um þetta í kafla 3 um skynsamlega og hagkvæma notkun lyfja — að skoða millivikni lyfja, vegna þess að þjóðin er að eldast, lyf eru að verða flóknari og það er verið að lækna eða gefa lyf við fleiri og flóknari sjúkdómum. Þetta er í rauninni stórt neytendamál, held ég, sem verður fyrir notendur lyfja. Þessi mál þurfa að vera í ofsalega góðu lagi. Mér finnst gott að komið er inn á þetta í lyfjastefnunni og held að því þurfi að halda til haga.

Það er talað um að ríki eigi í vaxandi mæli í erfiðleikum með að tryggja aðgengi að nýjum og dýrum lyfjum og gera áætlanir um notkun þeirra innan fjárheimilda. Þetta snýr líka að kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þar finnst mér aftur svo mikilvægt að við höfum í huga að upptaka nýrra og dýrra lyfja er samt ekki bara kostnaður heldur er það fjárfesting. Þetta er ekki aðeins fjárfesting í því að stytta sjúkrahúslegu fólks, þótt það sé vissulega ein af fjárfestingunum, heldur er þetta fjárfesting í heilsu og virkni. Þess vegna getur þetta haldið fólki á vinnumarkaði og þar með sparað þegar kemur inn í almannatryggingakerfið, sem er reyndar ekki það sem heyrir undir þennan hæstv. ráðherra en kemur að fjármálum ríkisins í heild sinni. Við þurfum alltaf að hafa það í huga þegar við ræðum lyfjamálin.

Í greinargerðinni á bls. 5 er fjallað um að auka hagkvæmni og skynsemi í notkun lyfja og þá sé rétt að skoða leið sem Svíar hafa farið í niðurgreiðslum. Það er rosalega lítið fjallað um þetta, í nokkrum línum. Ég segi að það kunni vel að vera að þetta sé sniðugt og væri líklega einhverrar nefndar að gera það. Mér þætti gott að fá meira kjöt utan á beinin og fá svolitlar upplýsingar um það hvað er verið að vísa í. Ég sé það alla vega ekki augljóslega út úr þessum texta.

Ef þetta er eitthvað sem við þingmenn eigum síðan að fá inn á okkar borð, sem partur af því hvernig einhver kostnaðarþátttaka eða niðurgreiðslur fara fram, þá þurfum við að fá betri upplýsingar um það mál í fyllingu tímans en er að finna í þessari greinargerð einni saman. Það er líklega eitthvað sem til að mynda hv. velferðarnefnd getur skoðað nánar. Ég veit ekki hvort það er rétt að gera það á þessum tímapunkti.

Frú forseti. Tíminn er að renna frá mér og ég vil að endingu segja að hér er fjallað um, og hæstv. ráðherra gerði það líka í framsögu sinni, að kannað verði hvort æskilegt sé að heimila að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum. Þá velti ég því fyrir mér hvort það sé skynsamleg hugmynd og hvort það rími við það að sporna eigi (Forseti hringir.) gegn óhóflegri notkun lyfja. Ég held að það sé mál sem eigi að fara verulega varlega í.