146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessa mikilvæga máls, þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram um lyfjastefnu til ársins 2022. Samhljóða tillaga var lögð fram á 145. þingi 2015–2016 en náði ekki fram að ganga. Þetta er nú kannski ríflega andlitslyft tillaga, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra hefur einu og öðru verið hnikað til, eitt fellt út og öðru bætt í.

Þetta er gríðarlega umfangsmikill málaflokkur og í raun risamálaflokkur í orðsins fyllstu merkingu sem snertir alla landsmenn frá vöggu til grafar og notkun lyfja fer auðvitað stöðugt vaxandi. Við verðum stöðugt háðari því að eiga góð lyf til notkunar í lífi okkar. Þau skipta auðvitað sköpum fyrir margan, bæði til skemmri tíma og svo eru einstaklingar sem þurfa á lyfjum að halda allt sitt líf og gætu ekki án þeirra verið. Samfara því að notkun vex stöðugt þá vex auðvitað kostnaður, bæði fyrir hinn einstaka og hið opinbera. Í þessu felst mikil áskorun fyrir stjórnvöld á hverjum tíma.

Þetta er risaviðfangsefni á heimsvísu. Það er mikil gróska í þessum geira. Þetta er þekkingargeiri og þróunargeiri og viðskiptin eru fjörleg, en að sama skapi ræður nú ekki alltaf mannúðin einasta för heldur eru markaðsöflin að verki og einhver angi af efnishyggju. Glíman stendur við þetta hjá stjórnvöldum. Við heyrum stöðugt af nýjum lyfjum sem fara frægðarför um heimsbyggðina og það er auðvitað mikil og hávær krafa hjá þegnunum um að nýjustu og bestu lyfin séu alltaf stöðugt tekin í notkun. Og þau eru dýr. En þetta er skiljanleg krafa, við glímum hér við rætur lífsins og við viljum öll eignast sem best líf. Nú er sem dæmi líklega verið að prófa tæplega 100 lyf í baráttunni gegn sjúkdómum á borð við alzheimer og liðagigt.

Ísland hefur algjöra sérstöðu varðandi lyfjanotkun. Við skerum okkur úr miðað við nágrannalöndin. Við notum mun meira af örvandi lyfjum, róandi og kvíðastillandi lyfjum og svefnlyfjum, ásamt verkjalyfjum. Þá er sýklalyfjanotkun Íslendinga meiri heldur en hinna Norðurlandabúanna. Ekki alls fyrir löngu kom það fram í Læknablaðinu um ávísanir á lyf að við notum testósterónlyf margfalt á við nágrannalöndin. Þessi umræða hefur verið í gangi hér um langa hríð, þessi mikla notkun okkar á ýmiss konar geðlyfjum og vega þunglyndislyfin hvað mest. Það er ekkert land innan OECD-ríkjanna sem notar annað eins af þunglyndislyfjum og Íslendingar. Aukningin er sem dæmi um 27% á milli áranna 2010–2015. Kannanir sýna að það eru konur sem nota meira lyf af þessu tagi en karlar.

Hin mikla notkun á þunglyndislyfjum á Íslandi gefur tilefni til að fylgst sé grannt með og kannað hvernig við getum breytt þessu. Menn spyrja: Vegna hvers notið þið svona mikið af þunglyndislyfjum? Vegna hvers nota Íslendingar svona mikið af geðlyfjum, miklu meira en aðrar þjóðir? Við notum tvöfalt og upp í þrefalt meira en næstu nágrannar okkar. Hver er sérstaðan? Þegar fagfólk er spurt þá er svarið giska þunnt. Menn vita það ekki, menn hafa ekki skoðað það. Það er ein áskorunin í þessari lyfjastefnu að ég tel. Það er drepið á það lítillega að við ættum að grandskoða það hver ástæðan er fyrir þessu. Við teljum okkur ekki vera síður heilbrigða og glaða og káta og hamingjusama eins og nágrannaþjóðirnar okkar, jafnvel ein hamingjusamasta þjóð í heiminum. Þetta rímar kannski illa saman. Það felst mikil áskorun í þessari lyfjastefnu.

Það kemur fram í plagginu að rétt og skynsamleg notkun lyfja getur lækkað annan kostnað í heilbrigðiskerfinu. Það eykur auðvitað lífsgæði fólks að finna lyf við hæfi þegar á bjátar. Það getur komið í veg fyrir innlagnir á sjúkrahús, leitt af sér styttri legutíma og færri veikindadaga. En röng notkun lyfja er líka til eins og við þekkjum. Hún getur skapað hættu fyrir sjúklinga og haft í för með sér sóun og mikinn kostnað.

Þessi tillaga um lyfjastefnu sem nú er lögð fram felur í sér þrjá áhersluþætti. Það er í fyrsta lagi aukið aðgengi allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum, í öðru lagi öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónusta og svo í þriðja lagi skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja.

Mig langar að drepa örlítið á nokkra þætti. Það er talað um að unnið verði að opnun markaðarins og meiri samkeppni í samstarfi við Norðurlandaþjóðir og að útboð lyfja verði styrkt og bætt og leitað eftir samstarfi um sameiginleg útboð með öðrum Norðurlandaþjóðum. Þetta er mikilvægt atriði. Sameiginleg innkaup fyrir stærri markað. En ég minnist þess nú að þetta hefur verið í umræðunni í nærri sennilega tvo áratugi. Spurt er: Vegna hvers gengur þetta svona hægt og vegna hvers er þetta svona erfitt? Við vitum að það eru gerðar strangar kröfur um leiðir fyrir nýjum lyfjum. En getur ekki hinn norræni markaður t.d. sameinast um eitt leyfi? Við teljum okkur í svo mörgu tilliti vera sambærileg okkar nágrönnum.

Hér er drepið á það líka að stefnt verði að því að sérmenntaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái takmarkaðan rétt til að ávísa ákveðnum lyfjum. Þetta var í fyrri stefnunni að mig minnir líka. Þetta er af hinu góða. Ég þykist vita að þetta fyrst og fremst þungunarmálefni sem í hlut eiga, heyri kannski nánar í ráðherra um það.

Síðan er talað um lausasölulyf, að það verði hugað að því að opna fyrir sölu á þeim í almennum verslunum, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég tel ástæðulaust að bera fyrir sig landsbyggðina í þessu því víðast hvar á landsbyggðinni eru litlar lyfjabúðir. Þar sem þær eru ekki fyrir hendi þá eru litlar lyfjabúðir eða lyfjaver, skulum við kalla, inni á heilbrigðisstofnunum eða við heilbrigðisstofnanir sem leysa þetta með ágætum. Litlar lyfjabúðir eru í stöku tilvikum starfræktar í tengslum við heilbrigðisstofnanir. Það fer ágætlega á því.

Síðan vil ég spyrja um það sem fellt er út úr þessari lyfjastefnu, það atriði með að kannaðar verði leiðir til lækkunar virðisaukaskatts á lyfjum og hvort slík lækkun muni skila sér til sjúklinga, hét það í gömlu tillögunni. Spurningin er vegna hvers þetta var fellt út. Það eru fleiri atriði sem felld voru út úr tillögunni og varða öryggi, gæði og virkni lyfja. Það er varðandi fjölgun klínískra lyfjafræðinga á heilbrigðisstofnunum t.d., aðgerðir til að bæta meðferðarheldni og sporna við fjöllyfjanotkun, hún verði samræmd. Lyfjafræðileg ráðgjöf verði stunduð við val á lyfjum og gerð lyfjalista á heilbrigðisstofnunum. Á heilbrigðisstofnunum, hjúkrunar- og dvalarheimilum verði farið með faglegum og skipulegum hætti yfir lyfjanotkun þeirra sjúklinga sem nota mörg lyf samtímis því lyfjavandamál hjá öldruðum er gríðarlegt vandamál.

Ég vona að hæstv. ráðherra geti varpað einhverju ljósi á þessi atriði. Ég fæ kannski að koma upp í andsvar við hann.