146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls í þessu mikilvæga máli sem er lyfjastefna til ársins 2022. Hér hefur margt ágætt komið fram. Ég verð að taka undir allflest af því. Fyrst dettur mér í hug þegar við tölum um orsakir þess að Íslendingar nota svo mikið af lyfjum að gjarnan var nú sagt að það væri vegna þess að það væri svo dimmt hérna, þess vegna væru Íslendingar kannski þyngri en margar aðrar þjóðir. Við þyrftum kannski að ávísa meira af D-vítamíni á mannskapinn frekar en einhverjum þunglyndislyfjum oft á tíðum, án þess að ég ætli að gera lítið úr því að þau hafa gert gott fyrir ansi marga.

Ég held að hluti af skýringunni sé sá að við mælumst mjög há í geðröskunum hér á landi miðað við höfðatölu. Síðan hefur lyfjanotkun ungra barna aukist mjög mikið. Hluti af skýringunni held ég að sé bæði mannfæð innan stofnana, mikið álag á heilbrigðisstofnanir okkar og líka innan skóla eins og við þekkjum, þar er beinlínis gerð krafa um það að ef börn þurfa einhverja aðstoð af hálfu sveitarfélagsins, stuðning eða eitthvað slíkt þá þurfi geðlæknir að hafa úrskurðað að barnið sé með einhverja tiltekna röskun til þess að hægt sé að veita þann stuðning, þ.e. sveitarfélagið fái þá greitt úr jöfnunarsjóði til þess að standa undir þeim kostnaði sem af því hlýst að veita börnum viðunandi stuðning. Þetta er ekki algilt, en þetta er meira og minna svona. Ég held að það sé hluti af skýringunni. Ég hef starfað innan skólans og séð að lyf hafa gert mörgum börnum óskaplega gott og orðið til þess að þau eignast nýtt líf. En ég hef líka séð töluverðan árangur af fjölbreyttri meðferð, sem við tölum kannski um á eftir í næsta máli, sem ég held að þyrfti að fá enn þá meiri stuðningi innan kerfisins heldur en er.

Við eigum mjög góða innkaupadeild sem er Landspítalinn þegar kemur að innkaupum á lyfjum. Ég man að samþykkt var frumvarp sem kom fyrir fjárlaganefnd um opinber innkaup þar sem var m.a. rýmkað fyrir lyfjainnkaup. Maður hefur furðað sig á því að sjúkrahúslyfin, S-merktu lyfin svokölluðu, fara fram úr áætlun ár eftir ár, það virðist ekkert hafa breyst þar þrátt fyrir að gengið ætti kannski að vera hagfellt. Það er vissulega gjarnan verið að gera útboð til lengri tíma, en það ætti að virka í báðar áttir hefði maður haldið. Það hefur komið pínulítið á óvart að ekkert hafi gerst í þeim efnum.

Ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, það er árið 2017 og við erum svolítið mikið á sama stað og við höfum verið í áratugi varðandi ótrúlega mörg mál. Manni finnst óskiljanlegt að við séum á tölvuöld þegar hér er talað um að nauðsynlegt sé að opinberir aðilar eigi samstarf um upplýsingamál þannig að við höfum allar helstu upplýsingar um lyf og lyfjanotkun og getum fundið á einum stað með tengingu við aðrar heilbrigðis- og stjórnsýslustofnanir. Auðvitað á þetta að vera fyrir löngu orðið að veruleika. Þetta er hluti af því að við getum tekist á við misnotkun lyfja.

Ég verð líka að segja það að ég geld varhuga við h-liðnum þar sem talað er um aukið og bætt aðgengi að lyfjum með því að setja lausasölulyf í almennar verslanir. Heilbrigðisstofnanir og heilsugæslurnar eru vel færar um að sinna þessu. Ég tel að það sé skynsamlegt að við höldum því en séum ekki frekar en að setja brennivín í búðir að setja lyfin almennt í verslanir. Frekar á að leggja áherslu á, eins og hér er tekið fram, að fjölga lyfjatæknum og sjá til þess að þeir séu í rauninni virkari innan apóteka og þar sem lyf eru almennt seld. Það hefur dregið úr aðsókn í lyfjatækninám. Hér er talað um að efla námið og stuðla að fjölgun. Það væri áhugavert að vita hvort einhver plön eru um það, með hvaða hætti það skuli gert, því ekki er hægt að sjá það í fjármálaáætluninni hvernig það er beinlínis hugsað.

Hér er talað um eitt og annað sem eigi að gera, svo sem bættan hugbúnað og ég kom áðan inn á rafræna lyfseðla og rafræna umsýslu og allt þetta. Það er sagt í fjármálaáætluninni að það eigi að koma á fót klínískum lyfjagagnagrunni og að verkleg afgreiðsla umsókna um klínískar lyfjarannsóknir og framkvæmd slíkra rannsókna verði í samræmi við reglugerðir ESB. Þetta er aðgerð, en það er ekkert talað neitt meira um það, finnst mér, hvernig eigi að gera það og hvort í þessu séu tilteknir fjármunir. Hér er talað um 9,2 milljarða aukningu á tímabili sem fjármálaáætlunin nær yfir, þar af er gert ráð fyrir 3 milljörðum vegna aukningar framlaga á árinu 2018. Hér er sagt að þá aukningu megi fyrst og fremst rekja til áætlaðra útgjalda á árinu 2017 umfram það sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Þá er nú kannski ekki mikið eftir þegar við horfum á hvað þarf að gera og lagt er til hér.

Það er margt gott hérna sem ég get tekið undir, t.d. það sem hér hefur verið komið inn á, að sporna við óhóflegri fjöllyfjanotkun. Það held ég að geti kannski orðið erfitt vegna þess að sameiginlega skráningarkerfið er ekki nægjanlega gott og það er auðvitað ástæða fyrir því að fólk getur misnotað kerfið eins og því miður of margir gera kannski. Auðvitað viljum við öll sporna við því að það sé verið að ofnota lyf, hvort sem það eru geð- eða verkjalyf. Þess vegna hlakka ég til að fá svar við fyrirspurn minni varðandi notkun geðlyfja á öldrunarheimilum af því að hér er m.a. komið inn á að þessar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar öllum og að sjálfsögðu á þetta að vera aðgengilegt öllum þeim sem á þurfa að halda starfs síns vegna, hvort sem það er á öldrunarheimilum eða annars staðar.

Ég vildi líka koma inn á það að hér er talað um að auka hagkvæmni og skynsemi í notkun lyfja og bent á hvað Svíar hafa verið að gera og að heilsugæslustöðvarnar niðurgreiði lyfin eftir ákveðnum reglum. Það er svolítið horft á þetta frá fjármálalegu hliðinni. Svíar gefa út ráðgefandi lista handa læknum yfir hvaða lyf eigi að nota, þ.e. hvaða lyf þeir eigi að skrifa út handa fólki. Vissulega er talað um að skapa aðhald í lyfjanotkun, en svo er talað um að sá sparnaður sem getur orðið nýtist í aðra þjónustu. Þetta snýst auðvitað líka um að fólk sé ekki að fá lyf sem það beinlínis þarf ekki.

Það er líka eitt hérna sem hefur kannski ekki verið rætt, á bls. 4, í sambandi við öryggi og gæði dýralyfja. Það er alveg rétt að það þarf að gæta að því ekki síður en fyrir mannfólkið. Þar þarf einmitt að bæta rafræna skráningu. Við vitum líka að dýralæknar þurfa að sinna risastórum svæðum og þá mætti skoða hvort þeir sem þurfa á því að halda, hvort sem það eru bændur eða aðrir, geti haft aðgang að tilteknum lyfjum þegar jafnvel er yfir fjallveg að fara og ekki hægt að nálgast þau með viðunandi hætti oft á tíðum. Það er auðvitað ástæða til þess að vekja athygli á því líka.

Ég geri mér grein fyrir því að það er uppsöfnuð þörf í kerfinu og búin að vera mjög lengi varðandi S-merktu lyfin. Ég hef áhyggjur af því að enn og aftur séum við ekki undir það búin þegar horft er til fjármálaáætlunar. Ráðherra leiðréttir mig kannski, það er erfitt að lesa sig í gegnum fjármálaáætlunina af því að við fáum ekki niðurröðunina á verkefni, þ.e. hvað er ætlað í hvað, fyrr en í haust, en eitt af því sem mér þykir gagnrýnivert er að hér eru aðeins örfáar tölur nefndar. Hér eru nefnd lyf og lækningavörur en ekkert í rauninni um það hvað tilheyrir hverju verkefni.