146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að ástæðan fyrir því að ekki er skýrar tekið á forvörnum í stefnunni sé einmitt vegna þess að stefnan er lyfjastefna og er um notkun lyfjanna, þ.e. það þegar við þurfum eða ætlum að nota lyf. Þó kemur fram í innganginum hér, svo ég vitni, með leyfi forseta:

„… meginmarkmiðin verði tryggt aðgengi að lyfjum, gæði, virkni og öryggi lyfja og skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja.“

Það má segja að þar sé aðeins vísað til forvarnaliðarins þótt stefnan felist fyrst og fremst í notkun á lyfjum. Þetta er mjög mikilvægt og er punktur sem kemur væntanlega inn í umræðuna um ofnotkun á geðlyfjum, þ.e. möguleiki á því að beita forvörnum sterkar. Þar hefur verið talað t.d. um svokallaða hreyfiseðla þar sem vísað er á hreyfingu og fólki gert kleift að halda í aukið heilbrigði til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma og þar af leiðandi koma í veg fyrir óhóflega lyfjanotkun.

Í sambandi við samhengi við sveitarfélögin er heilmikið samtal á milli þótt það komi ekki beint inn í lyfjastefnuna þar sem lyf og heilbrigðisþjónusta er á vegum ríkisins. Ég vil benda sérstaklega á úttekt á menntun án aðgreiningar sem var tekin út á Íslandi af Evrópustofnun og var skilað mjög góðri skýrslu og góðri vinnu nýlega. Á vegum menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, velferðarráðuneytis, (Forseti hringir.) beggja sviða, og í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga stendur til (Forseti hringir.) að setja saman starfshóp til þess að vinna áætlun byggða á þeirri úttekt.