146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[18:57]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2018. Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun í barnavernd. Er tillagan lögð fram samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga og felur í sér verkefni sem ætlað er að vinna að markmiði laganna um að tryggja börnum sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni eða þroska í hættu nauðsynlega og árangursríka aðstoð.

Við framkvæmd áætlunarinnar skulu barnaverndaryfirvöld hafa fjögur meginmarkmið að leiðarljósi: Að þróa barnaverndarstarf í landinu, að efla þjónustu barnaverndar, að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks í barnavernd og að tryggja framboð og aðgengi að úrræðum sem byggjast á gagnreyndum aðferðum.

Velferðarráðuneytið hefur yfirumsjón með framkvæmd áætlunarinnar en við gerð hennar var byggt á virku og víðtæku samráði við helstu hagsmunaaðila um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna. Framkvæmdaáætlunin var unnin af nefnd sem skipuð var fulltrúum velferðarráðuneytisins, Barnaverndarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Einnig var byggt á tillögum frá ráðgjafarhópi nefndarinnar sem skipaður var til að tryggja að sem flest sjónarmið yrðu tekin til athugunar með aðkomu og samráði við hagsmunaaðila.

Tillagan sem ég mæli fyrir hér í dag felur í sér þriðju framkvæmdaáætlun ríkisins í barnavernd og tilgreinir brýnustu verkefni á því sviði.

Fyrst ber að nefna stofnun nýs meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga með hegðunar- og vímuefnavanda. Á höfuðborgarsvæðinu búa flest þeirra ungmenna sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að meðferð barna fari fram í nærumhverfi þeirra til að viðhalda og bæta tengsl við fjölskyldu og takast á við vandann í umhverfi barnsins. Með því að stofna meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu verður jafnframt unnið að því að fjölga starfsmönnum með viðeigandi fagmenntun og efla þannig gæði meðferðarstarfs í barnavernd, en erfitt hefur reynst að uppfylla þær kröfur á meðferðarheimilum utan þéttbýlis. Þá mun staðsetning nýja heimilisins á höfuðborgarsvæðinu bæta aðgengi að nauðsynlegri ytri sérfræðiþjónustu.

Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar á barnaverndarstarfi á Íslandi. Barnaverndarnefndum hefur fækkað og umdæmi nefndanna stækkað. Sérhæfðu starfsfólki hefur fjölgað og faglegt starf verið styrkt með markvissum hætti. Í framkvæmdaáætlun þessari er því sérstök áhersla lögð á aðgerðir sem miða að því að bæta enn frekar verklag og vinnubrögð í barnaverndarstarfi þannig að markvisst sé byggt á gagnreyndum aðferðum og bestu þekkingu sem völ er á.

Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar er þannig gert ráð fyrir að þróuð verði aðferð til að meta með kerfisbundnum hætti vinnuálag starfsfólks í barnavernd. Einnig verði áfram unnið að því að innleiða gagnreynda og kerfisbundna matsaðferð við könnun mála og til að samræma og efla vinnu við að greina og meðhöndla frávikshegðun hjá börnum. Þá er einnig gert ráð fyrir því að á gildistímanum setji Barnaverndarstofa leiðbeinandi verklagsreglur fyrir barnaverndarnefndir um forgangsröðun barnaverndarmála eftir alvarleika til að tryggja að brugðist sé tímanlega við vísbendingum um alvarlegan vanda barns eða fjölskyldu.

Réttaröryggi barna og foreldra í barnavernd hefur verið bætt og aukin áhersla lögð á þátttöku þeirra og samvinnu. Því tekur framkvæmdaáætlunin mið af barnasáttmálanum eða samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verður áfram unnið að því að efla PMTO-þjónustu barnaverndar sem miðar að því að veita foreldrum þjálfun í styðjandi foreldrafærni, draga úr þvingandi uppeldisaðferðum, efla þannig foreldra í uppeldishlutverki sínu og stuðla að bættum samskiptum barna og foreldra. Framkvæmdaáætlunin tekur einnig mið af þeirri þróun sem orðið hefur í þjónustu við börn og í úrræðum barnaverndar. Því er lögð áhersla á að skapa lagastoð fyrir tiltekin úrræði í barnavernd sem byggja á gagnreyndum aðferðum og festa þau þannig í sessi til að tryggja áframhaldandi sérhæfða þjónustu við börn og fjölskyldur. Má þar nefna Barnahús sem sett var á laggirnar árið 1998 til að skapa vettvang fyrir samstarf og samhæfingu stofnana sem koma að málum er varða kynferðisofbeldi gegn börnum. Meginmarkmið hússins er jafnframt að létta álagi af börnum með því að hafa skýrslutöku af börnum í barnvinsamlegu umhverfi með aðkomu sérhæfðs starfsfólks á þessu sviði. Hugmyndafræði Barnahúss hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og hafa barnahús að íslenskri fyrirmynd verið sett á laggirnar i fjölmörgum löndum.

Starfsemi Barnahúss hefur verið í stöðugri þróun á síðustu árum og má sem dæmi nefna að sérhæft starfsfólk hússins veitir nú þjónustu í málum barna sem hafa upplifað alvarlegt heimilisofbeldi. Auk þess fara þar fram viðtöl við fylgdarlaus börn sem óskað hefur verið eftir alþjóðlegri vernd fyrir hér á landi.

Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar er gert ráð fyrir að skipaður verði starfshópur til að hefja heildarendurskoðun barnaverndarlaga, en tímabært er að kanna hvort túlkun laganna og framkvæmd þeirra sé í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á úrræðum barnaverndar. Fyrir liggur að um viðamikið verkefni er að ræða sem taka mun langan tíma og verður ekki lokið á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Því er gert ráð fyrir að á gildistíma hennar ljúki fyrsta áfanga þess verkefnis með því að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum um nauðsynlegar breytingar á barnaverndarlögum til að skapa lagastoð fyrir starfsemi Barnahúss auk annarra úrræða á vegum ríkisins í barnavernd eins og MST-fjölkerfameðferð. Í þessari meðferð felst að bjóða barni og fjölskyldu heildstæða meðferð og ráðgjöf á heimili og í daglegu umhverfi barns. Með innleiðingu MST-fjölkerfameðferðarinnar á landsvísu hefur dregið úr umsóknum barnaverndarnefnda fyrir vistun barna á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu.

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að það að upplifa ofbeldi á heimili getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þroska og heilsu barna. Mikil og jákvæð þróun hefur átt sér stað á síðustu árum með nýrri nálgun og bættum vinnubrögðum í heimilisofbeldismálum. Þá hefur samstarf lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í slíkum málum verið formfest víða. Á gildistímanum verður lögð áhersla á að tryggja börnum sem hafa upplifað heimilisofbeldi nauðsynlegan stuðning og sérhæfða þjónustu og koma á samræmdu verklagi um barnvæna nálgun í málum er varða heimilisofbeldi um allt land.

Á síðustu árum hefur ráðstöfunum barna á fósturheimili fjölgað og þessi aukna eftirspurn hefur þýtt að í einstökum tilvikum hefur tekið langan tíma að finna barni viðeigandi fósturheimili sem getur veitt því nauðsynlega umönnun. Í framkvæmdaáætluninni eru því lagðar til úrbætur í fósturmálum sem miða að því að mæta eftirspurn eftir fósturforeldrum og fjölga tækifærum fósturforeldra og verðandi fósturforeldra til fræðslu og þjálfunar til að efla þau og styrkja í hlutverki sínu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2018. Leyfi ég mér því að leggja til, hæstv. forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og síðari umr.