146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:08]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. velferðarráðherra. Ég fagna mikið þeirri áætlun sem er hér. Þar er mikið af góðum og metnaðarfullum markmiðum. Ég rak augun í það að endurtekið er sagt að kostnaður rúmist innan fjárheimilda velferðarráðuneytis og tvisvar sinnum sagt að kostnaður rúmist innan fjárheimilda Barnaverndarstofu. Nú vitum við örugglega öll að fjárskortur til langs tíma hefur holað starfsemi Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda að innan og gert þeim mjög erfitt að sinna faglegu og góðu starfi. Ég velti því fyrir mér hvort það séu áætlanir um að auka fjármagn til Barnaverndarstofu og hvort við getum fengið að sjá slíkar upplýsingar.