146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og vil fá að þakka fyrir þessa tillögu. Ég skal viðurkenna að ég kannast eilítið við innihald hennar þar sem unnið var að henni í minni tíð sem félags- og húsnæðismálaráðherra. Það sem ég vil fá að segja hér er að ég tel tillöguna innihalda — kemur kannski ekki á óvart — mjög góðar tillögur svo langt sem þær ná. Hér eru tillögur sem, eins og hefur komið fram, er raunhæft að vinna innan þessa tíma og er búið að fjármagna. Þegar við höfum fengið framkvæmdaáætlun inn í þingið hefur oft ekki legið fyrir fjármagn varðandi tillögurnar og þær hefur oft dagað uppi en ég tel að þetta sé hins vegar tillögupakki sem ætti að vera hægt að vinna með góðum hætti.

Það sem ég vildi hins vegar fá að segja hér og vonast til að velferðarnefnd hugi að þegar kemur að vinnu varðandi þessa framkvæmdaáætlun snýr að ákveðnu leyti að tillögu 7, um skipan starfshóps um breytingar á barnaverndarlögum. Það má segja að sú tillaga sé að einhverju leyti svar við fyrirspurn hv. þm. Halldóru Mogensen þar sem hún spurði um þau lagaákvæði sem snúa að framkvæmdaáætluninni sjálfri í barnaverndarlögunum og þann tímaramma sem er settur þar inn, hvort framkvæmdaáætlunin nái nægilega vel utan um stefnumörkun ráðherra í málaflokknum. Það hafa komið ákveðnar ábendingar frá Ríkisendurskoðun um að ráðuneytið þurfi að bæta sig verulega í stefnumörkun þegar kemur að barnaverndarmálum, vera meira leiðandi í stefnumörkuninni, og það er eitt af því sem ég hefði haft mikinn áhuga á að sjá endurspeglast í meira mæli í texta framkvæmdaáætlunar.

Þegar maður les í gegnum tillögurnar sjálfar held ég að við getum séð ákveðnar áherslur, ákveðna stefnu. Við getum svo sannarlega lesið áhersluna á að styðja við foreldra, áhersluna á að barnaverndarstarf grundvallist á því, eins og kemur fram í barnaverndarlögunum sjálfum, að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og svo beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Það sjáum við í því að hér er verið að tala um PMTO-þjónustuna. Annað sem við sjáum í miklu meira mæli og hefur verið mikil umræða um t.d. í Noregi er að þegar aðstaðan er þannig á heimilinu að ekki hefur gengið að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu og það þarf að grípa til úrræða sé fóstur betra úrræði en heimili. Hér eru tillögur sem snúa að því. Það er verið að tala um þjálfun og fræðslu til fósturforeldra sem og fjölgun fósturforeldra. Síðan er innleiðing gagnreyndra aðferða í fósturmálum.

Það sem ég hefði gjarnan viljað sjá bætt við, og það tengist að ákveðnu leyti fyrirspurn sem ég hef beint til ráðherrans og bíð enn eftir svörum við, d-lið varðandi rannsóknir um það, er að kanna hvað verður um börnin eftir að við höfum þurft að grípa inn í. Hver eru afdrif þeirra og hver er árangur af þeim úrræðum sem við notum?

Hér er lagt til að úrræði Barnaverndarstofu verði könnuð með ákveðnum hætti. Það hefur verið gert í MST-fjölkerfameðferðinni frá árinu 2008, en það á líka að gera hér samkvæmt tillögum um meðferð á Stuðlum og á Barnaverndarstofu. Ég hefði gjarnan viljað sjá að hið sama hefði gilt um fósturforeldra. Eitt af því sem ég hefði viljað sjá í miklu meira mæli er að við hefðum sett okkur einhverja heildarmælikvarða, ákveðna stefnu eða heildarmarkmið sem við vildum ná fram með áherslu okkar í barnaverndarmálum.

Eitt af því sem ég spurðist t.d. fyrir um í fyrirspurn minni er það sem hér er verið að ræða um sem snýr að úrræðunum á vegum Barnaverndarstofu, hvort barnið búi hjá foreldrum eða forsjáraðilum sem tóku þátt í þeirri meðferð sem þeir eru að bjóða upp á, hvort barnið hafi komist í kast við lögin og hvort það stundi nám eða vinnu. Í áströlsku stefnumörkuninni er t.d. bent á að mælikvarði sem skiptir verulega miklu máli þar er hvort barn hafi útskrifast úr 10. bekk í grunnskóla, hafi hafið nám í framhaldsskóla, hvað þá útskrifast úr framhaldsskóla. Það segir okkur að við höfum getað náð að hjálpa barninu að takast á við það áfall sem hefur orðið í uppeldi þess. Mælikvarði er hvort barnið sé í vinnu ef það er ekki í námi, hvort það, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, misnoti áfengi eða aðra vímugjafa og svo er að vísu spurt hvort barnið beiti ofbeldi eða hótunum um ofbeldi. Þetta er meðal þess sem ég vildi fá að nefna sérstaklega.

Bæði þau gögn sem ég kynnti mér við vinnslu þessa máls í Noregi, sem ég veit að Barnaverndarstofa hefur horft mjög mikið til sem mikillar fyrirmyndar og hvernig þar er unnið, og síðan það hvernig menn hafa nálgast þetta í Ástralíu er meðal þess sem ég vildi sjá hér varðandi endurskoðun á barnaverndarlögunum. Það gæti skilað því að við reyndum að horfa á að það hlutverk að vernda börnin okkar sem mun stærra verkefni en akkúrat sem snýr að því sem við horfum núna á mjög þröngt í gegnum starfsemi barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu.

Í skýrslum eins og frá Noregi er farið í gegnum nánast öll þau kerfi sem við erum með þar sem við erum að styðja við börnin okkar og fjölskyldur. Það er verið að tala um heilbrigðiskerfið. Það er verið að tala um skólakerfið. Áherslan er á að við höfum öll hlutverki að gegna, að við sem samfélag berum ábyrgð á því að styðja við börnin okkar. Yfirmarkmið í stefnumörkun Ástrala sem þeir voru að kynna, með leyfi forseta, „The National Framework for Protecting Australia's children 2009–2020“, nær yfir aðeins lengra tímabil en við erum að vinna hér með en þeir koma síðan með þriggja ára framkvæmdaplön sem byggja á þessari stefnumörkun. Markmiðið er að áströlsk börn séu örugg og að þeim líði vel. Það er yfirmarkmiðið. Það er það sem við ætlum okkur að gera með þessu og að við mælum það. Með þeim aðgerðum sem þau fara í á að draga jafnt og þétt úr misnotkun og vanrækslu barna í Ástralíu. Þetta hlýtur að vera það sem við erum að gera þegar við erum að tala um barnaverndarmálin, þær góðu aðgerðir sem hér eru og annað sem stjórnvöld gera í samstarfi við hina fjölmörgu aðila. Það er hugsunin á bak við þetta.

Mælikvarðar sem við erum að horfa á eru: Hvernig er heilsa barnanna okkar? Hvernig er þroski þeirra? Hvernig líður þeim? Hvernig segja þau að sér líði? Við eigum að skoða innlagnir barna á bráðamóttökuna á spítala þegar kemur að börnum undir þriggja ára aldri vegna þess að það er t.d. merki um að hlutirnir séu ekki í lagi ef þar eru auknar komur. Þegar við erum með staðfestar tilkynningar til barnaverndarnefnda eiga að sjálfsögðu allar viðvörunarbjöllur að fara af stað hjá okkur og við viljum sjá að við séum að vinna gegn því. Það er markmið að fá ekki málin, við viljum ná að grípa inn í áður en það þarf að beita barnaverndarúrræðunum. Og einn mælikvarðinn er hver þróunin er í vistun barna fyrir utan heimilið.

Þá komu Ástralir með stefnumörkun í sex liðum þar sem sérstaklega er talað um mikilvægi þess að huga að fjölskyldum sem eru með ákveðna áhættuþætti. Það er talað um heimilisofbeldi eins og hér. Það er talað um misnotkun á áfengi eða vímuefnum og líka er talað um geðheilbrigðisvandamál sem stóra áhættuþætti þegar kemur að vanrækslu og vanda hjá fjölskyldum.

Ég vonast til að með þessum tillögum getum við einmitt komið á framfæri skýrari stefnumörkun frá (Forseti hringir.) ráðherranum um það hvert markmið okkar er með því að leggja þetta til þannig að við getum tryggt að hvert og eitt barn á Íslandi hafi það gott.