146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál. Það var áhugavert að hlusta á fyrrverandi félagsmálaráðherra fara yfir þennan tiltekna þátt um fósturfjölskyldur og foreldra og skoða mjög ítarlega hvernig við fylgjum því eftir hvernig þau úrræði hafa reynst okkur og hvernig börnum hefur vegnað, hvort sem þau hafa lokið grunnskóla eða ekki. Mér finnst þetta mjög athyglivert af því að því miður skoðum við allt of lítið það sem við erum að gera. Auðvitað ætti það að vera ofarlega á baugi þegar við erum með jafn viðkvæmt fólk og þetta unga fólk okkar er, börn og ungmenni.

Mig langaði að koma inn í þessa umræðu af því að það er margt gott hérna. Ég velti því fyrir mér áður en ráðherra tók til máls hvers vegna áætlunin væri bara til eins árs. Hér er verið að fara ofan í stærri mál en þau sem rúmast innan eins árs, sýnist mér, þótt sumt sé tímasett á fyrri hluta næsta árs og flest af því sem hér er gert. Ég verð að segja að ég verð himinlifandi ef okkur tekst að fara í gegnum öll þau markmið sem hér eru sett sem á að ljúka innan ársins. Auðvitað skýrir það líka hvers vegna sumt af því rúmast innan áætlunar, annað ef það hefði verið til lengri tíma.

Mig langar að ræða það sem var þegar byrjað á og er nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að draga úr því að það sé skynsamlegt að hér verði sett á laggirnar slíkt heimili þar sem fjöldinn er mestur og þörfin fyrir því að beita margþættum úrræðum sem snúa að lausn vandamála þessara ungu aðila. Ég get samt ekki látið hjá líða að segja að við höfum verið með biðlista eftir plássum í langan tíma, í gegnum mörg ár. Það þekki ég úr fyrra starfi. Mér þykir leitt að þau úrræði sem ég tel að hafi verið til staðar hafi ekki verið fullnýtt.

Hér er vikið að því að ekki sé nægjanleg þjónusta til staðar úti á landsbyggðinni til þess að sinna þessu. Þá er ég ekki að gera lítið úr öðrum aðferðum sem kveða á um að reyna að sinna málefnum af nærfjölskyldunni. En það kemur fram í umfjöllun um bæði PMT-þjónustuna og MST að fjölga eigi þeim úrræðum úti á landsbyggðinni með því að mennta fleira fólk. Það er meira að segja sérstaklega tekið fram að 16 fagaðilar séu í PMT- og meðferðarnámi og ætlunin sé að þeir útskrifist fljótlega og að bæta eigi við þremur svæðum. Nú bjóða 20 stofnanir upp á þennan stuðning.

Mér finnst sérkennilegt að á sama tíma og við höfum haft meðferðarheimili á þessum svæðum sem hafa getað sótt t.d. í slíka sérþjónustu, jafnvel ekki langt frá svæðum og annað slíkt, hafi þau ekki verið notuð. Ég verð að segja að það hefur valdið ákveðnum vonbrigðum.

Það er mjög gott og gagnlegt að nýta fjölbreyttar aðferðir, eins og er lagt upp með. Að sjálfsögðu eigum við að gera þær breytingar strax ef það er virkilega þannig að við þurfum að breyta barnaverndarlögunum til þess að festa í sessi þá fjölkerfameðferð sem MST er t.d. eða varðandi fylgdarlausu börnin eða annað slíkt, ef þarf að tryggja það með lögum verðum við að breyta því hið snarasta. Ég vona svo sannarlega að það bitni ekki á þeirri þjónustu sem þessir aðilar þurfa á að halda í dag.

Það er líka talað um, sem mér þykir afar gott, að búa til viðbragðsteymi vegna vofeiflegra dauðsfalla barna. Því miður missum við allt of mikið af ungu fólki í alls konar aðstæðum sem við þyrftum að eiga til einhverja tölfræði um og kannski vita hvers vegna það gerist, þannig að við gætum gert eins og hér er lagt upp með, brugðist við. Það held ég að sé afar mikilvægt.

Í fjármálaáætlun kemur fram það sem vitnað er í í fjölskyldukaflanum um þetta unga fólk okkar sem við erum svolítið að fjalla um, þar sem er nýbirt rannsókn, með leyfi forseta:

„Staða ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri sýnir að stór hluti hópsins hefur fengið óviðunandi stuðning á yngri árum, bæði heima og í skóla, og helmingur hans hefur eingöngu lokið grunnskólaprófi og 3% ekki lokið grunnskóla.“

Síðar segir að mikilvægt sé að mæta þessum áskorunum með því að styrkja grunnþjónustu, efla forvarnir og snemmtæka íhlutun og að auka þurfi aðgang að geðheilbrigðisþjónustu.

Það sem mér fannst áhugaverðast í þessu er það að hér stendur:

„Staðan í málefnum barna með geð- og þroskaraskanir einkennist af skorti á heildarsýn sem og skorti á samþættingu og samstarfi og skorti á þjónustu á ákveðnum sviðum. Svo vitum við hverjar afleiðingarnar eru, m.a. fjölgun öryrkja o.s.frv.“

Mér þykir áhugavert að sjá að eftir fjögurra ára setu Sjálfstæðismanna, sem tilheyra þeirri ríkisstjórn sem nú er, hefur enginn árangur náðst í átt til betri aðstæðna heldur en hér er. Það er mjög fast kveðið að, það er skortur á bæði sýninni, samþættingunni og samstarfinu. Það er bagalegt eftir svo langan tíma og eftir að hafa rætt málefni þessara hópa í svo langan tíma að staðan skuli enn þá vera eins og hún er, ég tala nú ekki um það sem við ræddum aðeins áðan, eins og með geðheilbrigðismál og annað slíkt.

Hins vegar finnst mér plaggið hafa góð áform og fjölþætt úrræði sem ég vona að við náum utan um, eins og lagt er upp með á næsta ári. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að einhverjar aðgerðir fari að eiga sér stað. Mér finnst ótrúlega mikið skoðað án þess að við komust að tilteknum niðurstöðum og án þess að úrræðin verði að veruleika. Það er kannski eitt af því sem við Íslendingar erum ekki nógu góð í, ég veit það ekki. Sem lítil þjóð ættum við að geta gert þetta. Hérna er talað um barnvæna nálgun í heimilisofbeldismálum þar sem mikilvægt sé að tryggja að viðeigandi tillit sé tekið til réttinda og þarfa barna sem verða vitni að ofbeldi á heimilum sínum um leið og við komum upp nauðsynlegum stuðningi og sérhæfðri þjónustu á samræmdu verklagi um barnvæna nálgun í heimilisofbeldismálum hjá öllum barnaverndarnefndum.

Nú erum við búin að vera með sérstakt átak sem var sett af stað fyrir ekki svo mörgum árum og áfram haldið á síðasta kjörtímabili þ.e. þegar lögreglan var að taka á heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, verið að veita því sérstaka athygli. Maður hefði haldið að þetta ætti að fylgja. Mér finnst vanta heildarutanumhald um þetta. Ég vona að það verði ein af niðurstöðunum að þetta verði skoðað heildrænt, ekki að barnaverndarnefndir verði stakar í þessu verkefni heldur verði það hreinlega tengt inn til lögreglunnar þannig að heimilisofbeldi sem þangað er tilkynnt fari beinustu leið og fólk vinni svolítið saman.

Það hefur verið galli á kerfinu okkar, það þekki ég líka úr skóla, að um leið og maður vísar málum til barnaverndarnefnda þá fá skólarnir ekki að vita neitt um hvað er verið að gera og hver afdrif nemendanna eru eða fjölskyldunnar. Þetta er eitthvað sem við verðum að leysa og getum ekki látið loka inni á grundvelli þagnarskyldu. Ef við ætlum í alvörunni að tala um heildstæðar nálganir er þetta eitt af því sem ég tel að barnaverndarnefndirnar og löggjafinn þurfi að skoða þegar á að fara í að skoða þetta mál.