146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ábendinguna. Ég held að hún sé alveg gífurlega mikilvæg. Það eru einmitt rannsóknir sem hafa bent til þess margítrekað að fötluð börn séu í meiri áhættu að verða fyrir misnotkun, ofbeldi, kynferðisofbeldi. Þetta er stór áhættuþáttur. Þess vegna þótti mér á sínum tíma jafn mikilvægt að haldin væri þessi ráðstefna, til að fræða þá sem koma að þeim málum. En ég hefði líka gjarnan viljað sjá, eins og ég nefndi, varðandi skýra stefnumörkun að við hefðum gert t.d. eins og þeir gera í Ástralíu og lagt fram sex tillögur að áherslum og að ein af þeim hefði verið hvað við ætluðum að gera til að sinna sérstaklega fötluðum börnum sem við vitum að eru í meiri áhættu.

Eitt af þeim verkefnum sem hafa verið í gangi í Noregi, sem er einkar áhugavert, snýst um að styðja við foreldra barna sem eru með fötlun. Við vitum hversu fjölþætt fötlunin getur verið og þar eru einstakir foreldrar að sinna mjög erfiðum verkefnum. Það getur verið auðvelt að týna sjálfum sér í þeim verkefnum, að vita ekki hvernig á að takast á við þá erfiðleika sem geta komið upp. Þar er verið að bjóða upp á námskeið sem snúast um að styðja við þá foreldra. Það er eitt af því sem ég hefði gjarnan viljað sjá koma þarna inn.

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt fyrir þá að hafa í huga sem koma að endurskoðun laganna, að það komi mjög skýrt fram og sé ítrekað enn frekar í barnaverndarlögunum. Svo er það náttúrlega barnasáttmálinn sjálfur og þeir sáttmálar sem við erum búin að fullgilda hér og eigum að vera að vinna eftir sem snúa að réttindum fatlaðs fólks.