146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það að hv. velferðarnefnd skoði þetta og bæti því við og styrki þennan kafla. Mig langar að ítreka að svo eru það líka þeir sem á vegum sveitarfélaganna taka við tilkynningum eða þeir sem koma að barnaverndarmálum í rauninni á hvaða stigi sem er. Fyrir þá sem sitja í barnaverndarnefndum smærri sveitarfélaga, þar sem nándin getur verið mikil og þess vegna erfitt þegar viðkvæm mál koma upp, skiptir fræðsla um samning Sameinuðu þjóðanna líka rosalega miklu máli, til þess að þeir viti betur hverju eigi að vera á varðbergi fyrir, hvaða pytti þarf að varast er varða fordóma t.d. gagnvart fötluðum foreldrum, samt vitaskuld alltaf þannig að hagsmunir og öryggi barnsins séu í fyrirrúmi. Þetta getur verið dálítið flókið og þetta er svo sannarlega ekki þekking sem fólk fæðist með, þannig að þar held ég að stefnumótun stjórnvalda komi til með að skipta gríðarlega miklu máli. Það þarf reyndar að hafa í huga að þessi þáttur gæti kostað peninga, þ.e. fræðslan, það geta fylgt henni fjárútlát. En ég held að þau myndu svo sannarlega borga sig, sér í lagi ef við getum dregið úr líkunum á því að brotið sé á rétti, hvort sem er á rétti fatlaðra barna eða fatlaðra foreldra.