146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef talsverðar áhyggjur af þeim lagaákvæðum sem hér er að finna. Ég tek reyndar undir það ásamt minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar að breyta beri orðalagi um hjúskap og taka þar út tímamörkin sem einhvern veginn tókst að slæðast inn fyrir mistök í núgildandi útlendingalög. Hins vegar hef ég töluvert miklar áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag sem hefur nú verið stundað um nokkurt skeið muni draga úr réttaröryggi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það hefur þegar gert það. Ég tel það ekki vera málefnalegar ástæður að minnka réttarvernd hælisumsækjanda á grundvelli þess að fjölgun, eins og hér er orðað, tilhæfulausra umsókna hafi aukið álag á allt hæliskerfið og samtímis aukið kostnað ríkissjóðs og að þetta feli í sér að skerða megi málsmeðferðarréttindi þeirra sem Útlendingastofnun álítur borgara sem koma frá öruggum ríkjum.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann meiri hluta. Í meirihlutaálitinu kemur fram að við meðferð frumvarpsins í nefndinni hafi verið rætt um framkvæmd bráðabirgðaákvæðisins og að fram hafi komið sjónarmið um hvaða atriði eru notuð til þess að meta hvort land sé öruggt upprunaríki, eins hvaða atriði eru notuð til að meta hvort umsóknir séu bersýnilega tilhæfulausar. Þau sjónarmið komu hins vegar alls ekki fram með fullnægjandi hætti í nefndinni, sérstaklega hvað varðar hvaða matsatriði Útlendingastofnun notar til þess að komast að þeirri niðurstöðu að umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus og hefur Rauði krossinn m.a. haldið því fram að til þess að umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus sé nóg að aðili sé frá svokölluðu öruggu ríki, að það sé lagt að jöfnu. Hefur hv. framsögumaður (Forseti hringir.) ekki áhyggjur af því að hér tapist málsmeðferðarréttindi flóttamanna sem hingað sækja og að þeir (Forseti hringir.) verði sigtaðir út af grundvelli þjóðernis síns, sem er eins og við (Forseti hringir.) vitum brot á alþjóðalögum?