146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir þetta þar sem við höfum álit, við höfum umsögn frá Rauða krossi Íslands sem segir okkur varðandi framkvæmdina á þessu ákvæði að lagt sé að jöfnu að einstaklingur komi frá svokölluðu öruggu upprunaríki og að einstaklingur hafi lagt inn bersýnilega tilhæfulausa umsókn. Þetta er verulegt áhyggjuefni ef þjóðerni einstaklinga verður til þess að þeir hljóta ekki rétt til þess að kæra fresti réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar, sérstaklega í ljósi breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem leggur til að við lögin bætist eftirfarandi, með leyfi forseta:

„… berist kærunefnd útlendingamála beiðni um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar eða kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að fresta ekki réttaráhrifum skuli nefndin vísa frá slíku erindi.“

Þetta þykir mér hvað hættulegast við það sem kemur frá hv. meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að þar með er tekið allt matskennt vald af kærunefnd útlendingamála til að grípa í taumana ef í ljós kemur að Útlendingastofnun misbeitir valdi sínu, er mögulega að flytja fólk úr landi á einhvers konar færibandi á grundvelli þjóðernis. Vissulega má segja sem svo að mörg þessara ríkja séu almennt örugg. Hins vegar má segja um nokkur þeirra að tilheyri einstaklingar ákveðnum minnihlutahópum geti þeir vel fallið undir skilgreiningu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi flóttamanna. Því hef ég verulegar áhyggjur af því að ekki liggi almennilega fyrir hvernig Útlendingastofnun metur bersýnilega tilhæfulausa umsókn, umsögn Rauða kross Íslands og svo þessa breytingartillögu frá meiri hlutanum. Ég spyr hv. framsögumann meirihlutaálitsins (Forseti hringir.) hvort hann deili ekki þeim áhyggjum að þetta geti mögulega orðið til þess (Forseti hringir.) að við brjótum á réttindum varnarlausustu umsækjenda okkar.