146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[20:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili ekki þeim áhyggjum og bendi á það aftur að mál eru skoðuð út frá fleiri forsendum en eingöngu upprunalandinu eða vegabréfinu, ef svo má segja. Þegar Útlendingastofnun kemst að niðurstöðu í þeim efnum byggir það á athugun sem við gerum auðvitað kröfu um að sé á málefnalegum forsendum. Menn eru ekki sviptir kæruréttinum almennt, en hins vegar er gert ráð fyrir því að kæra þessarar tilteknu ákvörðunar sé tekin burt, möguleikinn á því, enda má ætla að breytingartillagan næði ekki tilgangi sínum nema tekið væri fyrir þann möguleika. Hugmyndin á bak við það er auðvitað sú að unnt verði á grundvelli athugunar Útlendingastofnunar að vísa þeim úr landi sem sækja um hæli á þeim forsendum ef athugun Útlendingastofnunar gefur til kynna að um tilhæfulausa umsókn sé að ræða. Ég held að áhyggjur af því að þessu matskennda valdi Útlendingastofnunar verði misbeitt séu ástæðulausar. Við verðum að hafa í huga að alþjóðleg lög og reglur á þessu sviði gera ráð fyrir því að menn geti sótt um vernd eða hæli á tilteknum forsendum. Þar er ekki um að ræða almennan rétt heldur verða að vera fyrir hendi ákveðin skilyrði til þess að menn geti nýtt sér (Forseti hringir.) þann möguleika. Ég held að við komum til móts við þau sjónarmið þrátt fyrir þessa breytingu.