146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég stend hér sem flutningsmaður minnihlutaálits allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, um frestun réttaráhrifa. Ég má til með að segja nokkur orð um þær alþjóðlegu skuldbindingar sem þetta mál varðar, en það er flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og einnig mannréttindasáttmáli Evrópu. Það mætti raunar líka taka til mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem veitir þann því miður allt of illa verndaða rétt að mega fara frá landi sínu og mega fara frjáls ferða sinna um heiminn, sem er náttúrlega ekki raunveruleikinn í dag.

Það sem liggur fyrir okkur akkúrat núna er að íslenska ríkið sér sér ekki fært að annast rétt yfir þúsund einstaklinga sem hingað leita í leit að alþjóðlegri vernd og telur sig þess vegna þurfa að skerða málsmeðferðarréttindi þeirra einstaklinga sem hingað koma sem íslenska ríkið hefur ákveðið að séu ekki með verðugar umsóknir um alþjóðlega vernd á grunni þess hvaðan einstaklingarnir koma, vegna þess að við erum ekki tilbúin að leggja neitt sérlega mikið fé í þennan málaflokk þrátt fyrir að Evrópa öll og heimurinn allur sé á þessari stundu að takast á við margfalt ef ekki hundraðfalt eða þúsundfalt stærra vandamál en við erum að takast á við hér hvað varðar aðkomu flóttamanna, vernd þeirra og meðferða mála þeirra.

Mér þykir hálfskammarlegt, herra forseti, að við skulum leita leiða til þess að skerða málsmeðferðarréttindi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd til þess eins að spara pening og spara tíma, í stað þess að leggja almennilega í þennan málaflokk, í stað þess að hæstv. ríkisstjórn standi við stóru orðin og gangist við því að taka við fleiri flóttamönnum og íhugi leiðir til þess að taka sem best á umsóknum þeirra sem virðast vera frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum, sem ég kem kannski nánar að á eftir þegar ég fer að rýna í nefndarálit okkar í minni hlutanum.

Þær grundvallarreglur sem er að finna í flóttamannarétti, sem byggist sérstaklega á flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, eru mjög mikilvægar en þær hafa verið þverbrotnar og síbrotnar á Íslandi. Það koma regluleg fram mál í fjölmiðlum, sem ég hef orðið vitni að sjálf sem málsvari sumra flóttamanna á Íslandi, þar sem brotið er mjög alvarlega á rétti flóttamanna, bæði hvað varðar málsmeðferðarréttindi en einnig hvað varðar almenn réttindi þeirra til þess að lifa með mannlegri reisn þegar þeir koma hingað í leit að hæli. Ég tel að þessi breyting hér sé þar alls engin undantekning. Mér finnst siðferðilega ámælisvert að standa fyrir þessu lagafrumvarpi þar sem ég tel okkur geta gert miklu betur í flóttamannamálum en við gerum nú. Ég tel algjöran óþarfa að skerða málsmeðferðarréttindi þeirra sem við höfum ákveðið á grundvelli þjóðernis þeirra að séu ekki þess verðugir að njóta eðlilegrar málsmeðferðar hér.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar kemur fram, með leyfi forseta:

„Fjölgun tilhæfulausra umsókna hefur aukið álag á allt hæliskerfið og samtímis aukið kostnað ríkissjóðs. Meiri hlutinn bendir á að mikilvægt er að stjórnvöld grípi til aðgerða sem miða að því að draga úr fjölda tilhæfulausra umsókna frá öruggum ríkjum til að hraða málsmeðferð og auka skilvirkni við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Meiri hlutinn leggur hins vegar áherslu á að slíkar aðgerðir dragi ekki úr réttaröryggi umsækjenda um alþjóðlega vernd.“

Herra forseti. Við höfum engin raunveruleg merki fengið og við höfum engar almennilegar fullvissanir fengið, hvorki frá Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála, um að það sé áhersla á að slíkar aðgerðir dragi úr réttaröryggi umsækjanda um alþjóðlega vernd.

Óskað var eftir þeim atriðum sem Útlendingastofnun eða útlendingayfirvöld notast við til þess að meta hvaða ríki skulu teljast sem örugg ríki samkvæmt þeim staðli sem á að nota hérna til þess að vísa fólki á brott fyrr en ella. Þær upplýsingar sem nefndinni bárust voru afskaplega rýrar og með þeim skilyrðum sem finna má á heimasíðu Útlendingastofnunar, sem sú sem hér stendur var fullkomlega meðvituð um en finnst alls ekki fullnægjandi til að sýna fram á að Útlendingastofnun leggi kalt mat á hvert land fyrir sig og hafi í huga þau sértæku atriði sem hafa ber í huga við hvert og eitt land. Það skiptir máli hvert af hinum svokölluðu öruggu ríkjum er til skoðunar hverju sinni, hvort það teljist öruggt fyrir einstaklinginn sem um ræðir. Við vitum t.d. að í sumum fyrrverandi austantjaldsríkjum getur verið mjög hættulegt að vera í svokölluðum blönduðum hjónaböndum og fólk getur sætt ofsóknum fyrir það.

Ég fæ hvergi séð að Útlendingastofnun eða yfirvöld eða löggjafinn gefi neitt svigrúm til þess að skoða þetta, hvaða atriði þurfi að líta sérstaklega til þegar kemur að einstaklingum. Þetta veldur meiri áhyggjum þegar fram kemur í umsögn Rauða krossins að við framkvæmd þessara laga hafi það verið lagt að jöfnu að einstaklingar komi frá svokölluðu öruggu upprunaríki, sem mér finnst hljóma eins og merking á matvælapakkningu frekar en eitthvað sem á við um uppruna fólks, sem skiptir máli, og að þeir teljist hafa lagt inn umsókn um alþjóðlega vernd sem er þá bersýnilega orðin tilhæfulaus á þeim grunni einum að einstaklingurinn kemur frá öruggu, þannig séð, upprunaríki. Þetta er að sjálfsögðu ólíðandi, hæstv. forseti, og sérstaklega í ljósi þess að nefndin hefur ekki fengið neinar tilhlýðilegar upplýsingar þess efnis að svona sé málum ekki háttað, þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir þeim.

Eins skal hér gulltryggt að kærunefnd útlendingamála geti ekki með nokkru móti gripið inn í ef útlit er fyrir að Útlendingastofnun hafi farið sér of geyst, hafi tekið ákvörðun of snemma eða hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum þegar hún úrskurðaði að umsögn væri bersýnilega tilhæfulaus, eins og þau kalla það, og getur því ekki ákveðið að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

Þetta er háskalegt að mínu mati vegna þess að grunnreglan í flóttamannarétti er sú, og þetta er það sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað haldið fram og þetta er einnig það sem kemur fram í álitinu okkar í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að að jafnaði skuli ekki vísa fólki úr landi fyrr en á lokastigum stjórnsýslunnar, þ.e. fyrr en endanleg ákvörðun hefur verið tekin á stjórnsýslusviði, öfugt við það sem þessi tillaga gengur út á sem er að eftir fyrsta stjórnsýslustig skuli löggjafinn jafnvel hafa skyldu til þess að vísa fólki úr landi eftir höfnun Útlendingastofnunar. Þetta er að sjálfsögðu þvert á tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem og þvert á tilmæli Rauða kross Íslands og annarra samtaka sem láta sig málefni flóttamanna varða. Mér þykir á þessum síðustu og verstu tímum, þegar við höfum aldrei séð jafn stórt flæði flóttamanna fara um heiminn, aumkunarvert að við séum hér að reyna að finna einhverjar leiðir til að komast hjá því að taka við aumum þúsund plús sálum sem leita út á ballarhaf aðeins til þess að fá vernd. Mér finnst ótrúlegt að við höfum ekki manndóm í okkur til þess að taka vel á móti þeim, taka þeim fagnandi og bjóða þau velkomin og gefa þeim þá málsmeðferð sem þau eiga skilið.

Þá er fyrirlestri mínum eða yfirlestri lokið. Ég ætla að venda mínu kvæði í kross og snúa mér að nefndarálitinu sem við í minni hlutanum höfum lagt fram með þessu máli, en þetta er nefndarálit með breytingartillögu. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp dómsmálaráðherra á þingskjali 328 miðar að tvenns konar breytingum á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Hin fyrri snýst um að festa í sessi efni bráðabirgðaákvæðis sem bætt var við lögin með 1. gr. laga nr. 124/2016, um breytingu á útlendingalögum, sem Alþingi samþykkti 22. desember 2016. Ákvæðið felur í sér að kæra á brottvísun útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd frestar ekki réttaráhrifum hennar hafi Útlendingastofnun metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og einstaklingurinn kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki. Síðari breytingin stafar af því að í 2. mgr. 70. gr. laga nr. 80/2016 höfðu orðið þau mistök að hjúskapur og sambúð voru lögð að jöfnu sem skilyrði fyrir umsókn um dvalarleyfi hvað tímalengd varðar. Þar sem ljóst þykir að það hafi ekki vakað fyrir löggjafanum að víkja frá fyrri framkvæmd er lagt til að málsgreinin er varðar tímalengd eigi einungis við um sambúð.

Minni hlutinn styður breytinguna sem 2. gr. frumvarpsins felur í sér en bendir á að nauðsynlegt sé að kanna hvort ákvæðið hafi haft áhrif á umsóknir einhverra einstaklinga og jafnvel leitt til brottvísunar ellegar að umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar sem staðið hefur styttra en ár, hafi verið hafnað. Hafi svo verið ber að sjálfsögðu að rétta hlut þeirra sem fyrir því urðu eins fljótt og auðið er.“

Herra forseti. Verði það ekki gert ber það merki um hvernig stjórnvöld á Íslandi líta á borgara þessa lands þar sem á annan veginn er hægt að líta á vilja löggjafans í stað þess að líta á lagabókstafinn, t.d. hvað varðaði réttindi ellilífeyrisþega gagnvart skerðingum almannatrygginga, þar skyldi fylgja vilja löggjafans, þar skyldi það haft í huga, en hins vegar þegar kemur að raunverulegum vilja löggjafans í útlendingamálum þar sem ástfangið fólk giftir sig sem er hvort af sínu þjóðerninu og vill fá að búa hérlendis þá fær það ekki að koma hingað út af einhverjum lagabókstaf sem bersýnilega er í andstöðu við vilja löggjafans, og það hefði ekki verið mikið mál að grennslast fyrir um hvort svo væri eða ekki. Þetta lýsir bara þeirri afstöðu sem ríkisvaldið hefur gagnvart því að verja eigið kerfi en aldrei eigin borgara og réttindi þeirra. Ég vona að þetta verði rannsakað hið snarasta og hafi þetta átt sér stað, hafi fólki verið meinað um dvalarleyfi hér á landi eða verið vísað á brott á grundvelli þessarar meinlegu villu í lögunum ber að leiðrétta það hið snarasta. Ég tel líka eðlilegt að opinber afsökunarbeiðni fylgi.

Áfram er haldið með minnihlutaálitið, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn er andvígur efni 1. gr. frumvarpsins og leggst eindregið gegn samþykkt hennar. Röksemdir gegn efni greinarinnar og áhrifum hennar á umsækjendur um alþjóðlega vernd eru skilmerkilega raktar í umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarpið og einnig í athugasemdum Lögmannafélags Íslands og samtakanna No Borders Iceland. Telur minni hlutinn að taka beri fullt tillit til athugasemda þessara aðila og ábendinga um ágalla 1. gr. frumvarpsins.

Áréttað skal að hugmyndin um svokölluð „örugg ríki“ er í meira lagi vafasöm og engan veginn byggð á traustum grunni, sérstaklega ekki þegar kemur að málefnum ýmissa minnihlutahópa í þeim löndum sem um ræðir. Með því að beita skírskotuninni til „öruggra ríkja“ og nota hana til að senda fólk af landi brott án viðhlítandi málsmeðferðar er í raun verið að hafna því, á grundvelli ríkisfangs, að meta umsóknir stórra hópa umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það verður þannig vegabréf umsækjanda sem ræður úrslitum um það hvort hlýtt er á mál hans en ekki kringumstæður viðkomandi. Minni hlutinn andmælir eindregið bæði hugmyndinni um lista „öruggra ríkja“ eins og hún er útfærð og beitingu hennar í samhengi útlendingalaga. Breytingartillaga meiri hlutans um að í stað „öruggra ríkja“ skuli standa „öruggra upprunaríkja“ breytir engu um afstöðu minni hlutans til ákvæðisins.

Í meðförum nefndarinnar á málinu komu fram þau sjónarmið að ákvæðinu um að áfrýjun frestaði ekki réttaráhrifum væri einungis beitt ef að umsækjandi er frá „öruggu ríki“ ásamt mati Útlendingastofnunar á því að umsóknin sé „bersýnilega tilhæfulaus“. Þó komu ekki fram fullnægjandi upplýsingar um hvaða matsatriði stofnunin notast við til þess að meta hvort umsóknir um alþjóðlega vernd séu „bersýnilega tilhæfulausar“. Að mati minni hlutans eru þessi lagaákvæði ekki fullnægjandi til þess að tryggja viðunandi réttarvernd umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ákvæðin skapa því hættu á því að íslensk stjórnvöld muni við framkvæmd þeirra geta brotið á grundvallarréttindum flóttamannaréttar, þ.e. banni við endursendingum.“

Hér ber einnig að líta til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu á sér víðtæka dómasögu hvað þessi mál varðar og tel ég það meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar til heilla að kynna sér þau mál og athuga hvort þau komist ekki að annarri niðurstöðu en þau komast að með breytingartillögu sinni og meirihlutaáliti sem hér liggur fyrir.

Ég ætla að klára þetta minnihlutaálit, með leyfi forseta, en þar kemur einnig fram:

„Minni hlutinn telur það afar mikilvægt að ákvarðanir stjórnvalds á borð við Útlendingastofnun séu kæranlegar þannig að slíkir aðilar öðlist ekki alvald í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd enda gengi það þvert gegn íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum og fæli að sjálfsögðu í sér hættu á að fólk sem hér hefur sótt um vernd yrði sent úr landi í kringumstæður sem geta reynst því háskalegar og voru ástæða flótta þess hingað. Áform þau um að fella niður eða skerða möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd til að vísa niðurstöðu til æðra stjórnvalds sem felast í 1. gr. frumvarpsins eru ávísun á ótæka málsmeðferð og geta einnig leitt til þess að mannréttindi verði brotin á umsækjendum.

Samandregið telur minni hlutinn að aldrei megi taka ákvörðun sem varðar öryggi umsækjenda um alþjóðlega vernd með öðru móti en að hagir og staða hvers og eins séu metnir í hverju tilviki fyrir sig. Þá telur minni hlutinn að ekki megi víkja frá því grundvallaratriði að stjórnvaldsúrskurðir séu kæranlegir og að kæra fresti sjálfkrafa réttaráhrifum uns endanlegur úrskurður liggur fyrir.

Minni hlutinn telur ekki fært að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir og leggur til eftirfarandi breytingu:

1. gr. orðist svo:

35. gr. laganna orðast svo:

Ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skv. 36., 37. eða 39. gr. skuli yfirgefa landið kemur ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðunin er endanleg á stjórnsýslustigi nema umsækjandi sjálfur óski þess að hverfa úr landi.“

Undir þetta minnihlutaálit ritar sú sem hér stendur, hv. þm. Gunnar Hrafn Jónsson og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson ásamt hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, sem er áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem er einnig samþykkur áliti þessu.

Að lokum vil ég taka fram að þó svo að einstaklingur sem hefur sótt hér um hæli og verið hafnað af Útlendingastofnun og umsókn hans verið metin bersýnilega tilhæfulaus og að hann komi frá svokölluðu öruggu upprunaríki hafi rétt til þess að kæra þá ákvörðun er sá réttur illa nýttur og oft gagnslaus ef á svo að vísa þeim einstaklingi úr landi. Það er mjög erfitt, herra forseti, að nýta sér kærurétt sinn, að reka mál sitt fyrir æðra stjórnsýslustigi, að verða sér úti um íslenska lögfræðinga, eiga samskipti við hann, sérstaklega í hættulegum aðstæðum í heimalandi viðkomandi. Þetta er einfaldlega engan veginn samanburðarhæft, það er ekki hægt að bera það saman að senda fólk úr landi til þess að það geti unnið kæru gegn fyrsta stjórnsýslustigi í landinu sem það kaus að flýja frá við að hljóta hér fulla málsmeðferð fram á annað stjórnsýslustig sem er meðferð kærunefndar útlendingamála.

Ég verð að segja að það hryggir mig mjög að þetta sé hin almenna þróun í réttarkerfinu á Íslandi og vilji löggjafans. Ég batt miklar vonir við það þverpólitíska samstarf sem átti sér stað við gerð nýrra útlendingalaga og ég verð að segja að ný útlendingalög voru mér mikil vonbrigði. Þau voru kynnt fyrir mér á fyrstu stigum þeirra, drögin að þeim, þar sem ég var talsvert tengd starfi um vernd flóttamanna og réttinda flóttamanna hér á landi frá árinu 2014. Mér var boðið á fund þeirrar þverpólitísku þingmannanefndar sem átti að fjalla um þetta mál og drög að nýjum útlendingalögum kynnt fyrir mér. Þau fylltu mig mikilli von. Ég hélt að hér væru loksins að eiga sér stað róttækar, fallegar og mannelskar breytingar á réttarkerfinu á Íslandi, á því hvernig við komum fram við hælisleitendur og flóttamenn hér á landi. En lögin eins og þau eru lögð fram núna og útlendingalögin eins og þau voru samþykkt voru mikil vonbrigði. Mér finnst þau lýsa mannvonsku. Mér finnst þau lýsa skorti á samúð og samkennd. Mér finnst þau hljóma nísk þegar við gerum þetta. Ég er orðin hundþreytt á því, herra forseti, og ég vildi óska þess að við værum aðeins mannúðlegri á þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)