146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Ég lofa að hlaupa ekki úr húsi núna beint eftir þessa ræðu eins og ég gerði í gær. En það var nokkuð árangursríkur mótmælafundur sem við áttum fyrir utan velferðarráðuneytið. Við fengum að vísu ekki að hitta hæstv. ráðherra en aðstoðarmenn þeirra buðu okkur inn fyrir. Við vorum kannski 60–70 manns, hópur frá Hugarafli og tveir þingmenn. Við fengum þau svör að það ætti að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda þessu úrræði gangandi. Það var ekki hægt að lofa neinum fjármunum en samtalið er alla vega hafið og við fylgjum þessu eftir. Til að fylgja þessu eftir mun ég ítreka ósk mína um að eiga fund með hæstv. heilbrigðisráðherra til að ræða þessi mál í víðara samhengi. Ég mun líka óska eftir sérstökum umræðum núna strax eftir páska um geðheilbrigðismál og ekki síst aðkomu félagasamtaka að þeim.

Svo get ég greint frá því, frú forseti, ef þú ferð ekki með það mikið lengra, að vonandi í haust ætlum við að reyna að vera með stórt málþing þar sem við köllum saman fulltrúa fjölmargra samtaka, líknarsjóða og minningarsjóða og slíkra aðila sem brenna fyrir þessum málefnum og eru tilbúnir að starfa saman að því að hjálpa velferðarráðuneytinu og ríkisstjórninni að komast að þeim markmiðum sem þau hafa sett sér. Til þess þarf þarfagreiningu, það þarf að skýra nákvæmlega hvert hlutverk þessara samtaka á að vera ef þau eiga að fá opinbert fé. Ég fagna því að þetta samtal sé núna að eiga sér stað og leyfi mér að vera bjartsýnni en ég var í gær.