146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Nú er ár liðið frá stórtíðindum í íslenskum stjórnmálum. Af því tilefni langar mig að vitna í ályktun sem stjórn Pírata á Norðausturlandi sendi frá sér sunnudagskvöldið 3. apríl 2016, með leyfi forseta:

„Kastljósþáttur dagsins sýnir fram á gífurlega spillingu íslenskra stjórnmálamanna, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í ljós hefur komið að þeir sem talið hafa fólki trú um að þeir væru að vinna af heiðarleika og með hagsmuni almennings fyrir brjósti, hafa vísvitandi logið til um eigur sínar sem þeir földu í aflandsfélögum í erlendum gjaldmiðlum á sama tíma og þeir mærðu íslensku krónuna.

Almenningur hér á landi á annað og betra skilið. Nauðsynlegt er að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga þar sem fólk fær tækifæri til að láta siðspillta stjórnmálamenn taka pokann sinn og kjósa heiðarlegt fólk í þeirra stað. Að því loknu verða stjórnvöld og almenningur að taka á þessari meinsemd sem spillingin er.“

Nú er kosningum lokið, reyndar fyrir allnokkru. Endurnýjun á þingi var allnokkur og nú er komið að okkur sem hér erum að taka á þeirri meinsemd sem spillingin er. Gagnsæi er grundvöllur slíkrar baráttu. Í því samhengi langar mig að benda á að við Píratar höfum lagt fram tillögur um að hinar ýmsu skrár verði opnaðar og gerðar aðgengilegar almenningi að kostnaðarlausu; hlutafélagaskrá, ársreikningaskrá og svoleiðis lagað. Við viljum að reglum verði breytt á þann veg að hin svokallaða 10% regla verði afnumin þannig að allir eigendur bankanna og hluthafar í bönkunum neyðist til að koma fram í dagsljósið, sem er sérstaklega mikilvægt nú þegar sala á Arion banka stendur fyrir dyrum.

Við viljum að sala bankanna verði rannsökuð með svipuðum hætti og gert var með sölu Búnaðarbankans, auk þess sem við leggjum til að fjárfestingarleið Seðlabankans verði rannsökuð.

Frú forseti. Við þurfum að ræsta út.