146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í morgunútvarpinu í dag gat að heyra viðtal við Helgu Sif Friðjónsdóttir, doktor og sérfræðing í geðhjúkrun með áherslu á fíknisjúkdóma, en hún ræddi nauðsyn þess að setja á fót dagsetur fyrir fólk í vímuefnanotkun, en ekkert slíkt setur er starfandi hér á landi eftir að setri Hjálpræðishersins var lokað. Helga Sif vísaði í skýrslu á vegum starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til þess að skoða skaðsemi núverandi löggjafar á fólk sem notar vímuefni.

Skaðaminnkun er orð sem heyrist allt of sjaldan hér á þingi og vil ég því gera hana að umtalsefni mínu í störfunum í dag. Samkvæmt áðurnefndri skýrslu heilbrigðisráðherra er skaðaminnkun byggð á viðurkenningu þess að fjöldi fólks víða um heim heldur áfram að nota vímuefni þrátt fyrir jafnvel ýtrustu viðleitni í samfélaginu til að fyrirbyggja upphaf eða áframhaldandi notkun vímuefna. Því er þörf fyrir valkosti fyrir fólk er neytir vímuefna sem hjálpar því að lágmarka hættu á skaða af áframhaldandi notkun. Því er nauðsynlegt að upplýsingar um skaðaminnkun, skaðaminnkandi þjónustu og önnur inngrip, séu til staðar í samfélaginu til að hjálpa við að halda fólki sem notar vímuefni heilbrigðu og öruggu.

Frú forseti. Með hliðsjón af áherslum skýrslunnar og þessu áhugaverða viðtali í morgun vil ég vekja athygli á því að farsælt geti verið að setja á fót hér öruggt neyslurými, en með því er átt við stofur þar sem notendur geta neytt vímuefna á öruggan hátt undir eftirliti lækna án þess að hætta á handtöku. Aðgangur að öruggum neyslurýmum minnkar líkur á andláti af völdum ofskammta, bætir almenna heilsu vímuefnanotenda, bætir aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, minnkar smittíðni smitsjúkdóma og minnkar glæpi til fjármögnunar vímuefnaneyslu. Alls eru nú samtals 88 örugg neyslurými í heiminum, í Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Spáni, Portúgal, Sviss, Lúxemborg, Kanada og Ástralíu.

Með þessari ræðu vil ég hefja samtal um þetta viðurkennda skaðaminnkunarúrræði og lýsa yfir óþreyju minni gagnvart því að lítið hefur heyrst um að auka vægi skaðaminnkunar í íslenskri vímuefnastefnu frá því að skýrsla heilbrigðisráðherra kom út. Skaðaminnkun snýst um raunsæi, mannréttindi, mannvirðingu og heilsu fólks með fíknivanda. Ég hvet hv. þingmann (Forseti hringir.) til þess að kynna sér málið nánar og hæstv. heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra til að ýta á eftir nauðsynlegum lagabreytingum sem setja skaðaminnkun í forgang í stað þeirrar mannskemmandi og gagnslausu refsistefnu sem hefur verið í gildi hér á landi hingað til.