146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Áætlun með þessu sniði er nú lögð fram í annað skipti á grundvelli laga um opinber fjármál. Áætlunin er upp á 370 blaðsíður og því af mörgu að taka. Hún gerir ráð fyrir uppbyggingu innviða, sókn í velferðarmálum, einfaldara skattkerfi og hraðri niðurgreiðslu skulda ríkisins.

Með öðrum orðum: Ábyrg hagstjórn sem miðar að aukinni velsæld, stöðugra gengi og lægri vaxtastigi. Með áætluninni má segja að sú stefna sem fram kom í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar raungerist í tölum. Útgjöld til heilbrigðismála aukast um meira en 20% á tímabilinu og útgjöld til annarra velferðarmála um 13%. Nýtt þjóðarsjúkrahús rís á næstu árum, greiðsluþátttökukerfi sjúklinga verður endurbætt og notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest. Greiðslur í fæðingarorlofi verða rýmkaðar. Útgjöld til samgöngumála eru aukin um nærri 23 milljarða kr. frá fyrri fjármálaáætlun. Listinn er langur yfir mikilvæg mál sem fá pláss í áætluninni, hvar sem drepið er niður.

Fyrst aðeins um formið. Áætlunin felur í sér ítarlega útfærslu á markmiðum fjármálastefnu og á stefnumörkun um þróun tekna og gjalda opinberra aðila. Samkvæmt lögunum skal leggja stefnuna til grundvallar við gerð frumvarps til fjárlaga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir komandi fjárlagaár. Fjármálastefnan, sem liggur til grundvallar þessari áætlun, hefur verið til umfjöllunar hér í þinginu síðustu vikur. Gagnlegar umsagnir bárust um fjármálastefnuna, auk þess sem fjármálaráð fjallaði ítarlega um hana í greinargerð. Fjármálastefna og fjármálaáætlun taka til ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hins opinbera. Þótt ríkisreksturinn sé mun umfangsmeiri rekstur en sveitarfélaganna er það sameiginleg ábyrgð ríkisins og sveitarfélaga að tryggja að ákvarðanir séu í samræmi við markmið hagstjórnar.

Virðulegi forseti. Hagstjórnarmarkmið ríkisstjórnarinnar má draga saman í fjögur meginatriði:

Í fyrsta lagi aðhald í ríkisrekstri, einkum á fyrri hluta áætlunartímans. Þetta á sér stoð í fjármálastefnunni sem gerir ráð fyrir afgangi hins opinbera sem nemur 1,6% af vergri landsframleiðslu árin 2018 og 2019, en síðan dragi úr aðhaldinu samhliða því sem dregur úr þenslu.

Í öðru lagi þarf að stuðla að stöðugleika og sátt á vinnumarkaði þannig að launastefna verði í samræmi við þol ríkisins og atvinnulífs.

Í þriðja lagi þarf að sporna við þeirri miklu gengisstyrkingu sem gerbreytt hefur rekstrargrundvelli útflutningsgreina. Þar ber sérstaklega að líta til vel ígrundaðra langtímaaðgerða frekar en skammtímalausna.

Í fjórða lagi þarf að tryggja og efla þjónustu og innviði. Til þess þarf atvinnulífið að vera kröftugt og rekstur ríkisins stöndugur.

Fjármálaáætlunin er byggð á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í febrúar 2017. Hagvöxtur í fyrra reyndist meiri en spár höfðu gert ráð fyrir, þ.e. 7,2%. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 4,3% hagvexti í ár og að hann verði svo minni. Gangi spáin eftir verður þetta eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Ástæður fyrir hagfelldri efnahagsþróun eru ýmsar. Á sama tíma og ferðaþjónustan hefur vaxið hratt hafa ytri skilyrði þjóðarbúsins verið hagstæð. Skuldir heimilanna hafa minnkað, atvinnuleysi er lítið og verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands um nokkurt skeið.

Þótt efnahagshorfur til næstu ára séu að ýmsu leyti hagfelldar eru blikur á lofti, m.a. aukin spenna á vinnu- og húsnæðismarkaði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, ört vaxandi ferðaþjónusta og hækkandi gengi krónunnar. Allar útflutningsgreinar hafa fundið fyrir tekjutapi í kjölfar styrkingar krónunnar. Ekkert ríki í Evrópusambandinu ber hærri vaxtagjöld en Ísland sem hlutfall af tekjum hins opinbera, en um 10% af tekjum ríkissjóðs er varið í greiðslu vaxtagjalda. Niðurgreiðsla skulda er því lykilforsenda þess að hægt sé að mynda rými til að auka útgjöld eða lækka skatta.

Allar einskiptistekjur skulu fara til niðurgreiðslu skulda í stað þess að stofnað verði til varanlegra útgjalda á grunni þeirra. Þetta er í samræmi við álitsgerð fjármálaráðs.

Háir vextir á Íslandi, samanborið við nágrannaþjóðirnar, setja uppbyggingu í atvinnulífinu hömlur, auka húsnæðiskostnað einstaklinga og gera samanlögð vaxtagjöld ríkissjóðs og sveitarfélaga þau hæstu í Evrópu.

Stjórnvöld sem virða sjálfstæði seðlabanka til ákvörðunar stýrivaxta hafa það eina ráð að búa svo um hnúta með hagstjórn sinni að umhverfi og aðstæður skapist til lækkunar vaxta. Stærsti einstaki liðurinn í því er að beita aðhaldi í rekstri svo að peningastefnan þurfi ekki ein að vega á móti spennu í hagkerfinu. Seðlabanki getur þá haft vexti lægri en ella til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki.

Þrír kraftar kalla á aðhald; efnahagsleg þensla, gengisstyrking og þung vaxtabyrði, og valda því að fjármálastefnan sem lögð var fyrir Alþingi fyrr á árinu gerir ráð fyrir töluvert meiri afgangi af ríkisfjármálum en stefnan sem samþykkt var síðastliðið sumar, eða 1,6% af vergri landsframleiðslu í stað 1,0%.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál ber stjórnvöldum að setja sér skuldamarkmið. Í fjármálastefnu sem sett var fram í janúar sl. er gert ráð fyrir að heildarskuldir hins opinbera verði komnar undir 30% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2019 og að þær verði ekki hærri en 26% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2022 og uppfyllir áætlunin þá skuldareglu laga um opinber fjármál.

Víkjum nú að afkomu ríkissjóðs og stefnumiðum ríkisfjármálaáætlunar. Þenslan í hagkerfinu er nú orðin meiri en fyrir ári. Afkomumarkmið svarar til þess að afgangur á ríkisrekstrinum verði um 40 milljarðar kr. að jafnaði á ári eða sem nemur um 200 milljörðum kr. í uppsafnaðan afgang yfir tímabilið. Í fyrri fjármálaáætlun var viðmiðið um 25 milljarða kr. afgangur. Flestir umsagnaraðilar um fjármálastefnuna sögðu að aðhaldið mætti ekki minna vera á tímabili áætlunarinnar. Í fjármálaáætluninni eru settar fram tillögur um heildstæðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu og afnám ívilnana sem gistiþjónusta og ýmsar tegundir ferðaþjónustu hafa haft. Virðisaukaskattur á þessa þjónustu færist í almennt þrep frá miðju ári 2018. Greinin hefur því 15 mánuði til að laga sig að þeirri breytingu, frá kynningu til gildistöku. Greiningarvinna sem fór fram samhliða þessari breytingu bendir til þess að hún muni hægja á vexti í greininni en ekki stöðva hann, grein sem hefur vaxið hraðar en innviðauppbygging ræður við.

Á grundvelli þess svigrúms sem hlýst af slíkri skattkerfisbreytingu í ferðaþjónustunni er í kjölfarið stefnt að því að almennt þrep virðisaukaskatts geti lækkað úr 24,0% í 22,5% og bilið milli lægra þreps og almenns þreps minnki því sem þessu nemur. Í þessu felst mikil kjarabót fyrir neytendur og dregur úr þörf fyrir almennar kauphækkanir. Samtímis verður litið til þess að lækka tryggingagjald á síðara hluta kjörtímabilsins eftir því sem svigrúm verður til sem kemur sér vel fyrir launþega og atvinnulíf.

Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Útfærsla á því krefst góðs undirbúnings og fyrsta skrefið er stigið með hækkun kolefnisgjalds.

Virðulegi forseti. Sá þáttur áætlunarinnar sem flestir hafa áhuga á er rammaútgjöldin. Þar er heildarútgjöldum deilt niður á málefnasviðin 34 fyrir næstu fimm ár. Frekari forgangsröðun og ákvarðanataka ráðuneyta um skiptingu fjárheimilda í málaflokka birtist í fjárlagafrumvarpi næstkomandi haust. Gert er ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs verði um 78 milljarðar kr. árið 2018 en verði orðin 11 milljörðum lægri við lok tímabilsins. Gangi það eftir munu vaxtagjöldin fara úr 2,8% af landsframleiðslu niður í 2,0% á árinu 2022. Útgjaldastig ríkisins, svonefnd frumgjöld, mun haldast nær óbreytt yfir tímabilið.

Reiknað er með vexti í helstu rekstrarmálaflokkum ríkisins, stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana, löggæslu- og öryggisstofnana, menntastofnana og heilbrigðisstofnana. Innifalið í útgjaldarömmunum eru jafnframt áætlanir um að mæta útgjaldaliðum þar sem fyrirsjáanleg eru veruleg umframútgjöld á yfirstandandi ári í rekstri sjúkratrygginga, almannatrygginga og vegna hælisleitendamála. Ríflega 8 milljarðar á ári fara samtals í þennan útgjaldaauka.

Í áætlunina er innbyggt almennt 2% aðhaldsmarkmið fyrir árið 2018. Lægri aðhaldskrafa er sett á sjúkrahús og öldrunarstofnanir, 0,5%, auk þess sem engin aðhaldskrafa er gerð á atvinnuleysis- og almannatryggingar. Á síðari árum áætlunarinnar er gert ráð fyrir að almenna aðhaldskrafan verði 1,5% í stað 2,0% en að aðrar forsendur verði óbreyttar. Þá gerir áætlunin enn fremur ráð fyrir ríflegu útgjalda- og fjárfestingarsvigrúmi yfir tímabilið sem skiptist niður á málefnasviðin með ákveðinni forgangsröðun. Þetta svigrúm er með öðrum orðum peningur sem búið er að ákveða að eyða en ekki ákveðið í hvað á að fara. Svigrúmið eykst eftir því sem á áætlunina líður.

Forgangsmál stjórnvalda í áætluninni eru aukin framlög til heilbrigðismála. Þau málefnasvið sem falla undir heilbrigðismál eru stærsti einstaki útgjaldaliðurinn í ríkisrekstrinum og nema rammasett útgjöld þeirra málefnasviða samtals 188 milljörðum kr. á þessu ári. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin í skrefum um ríflega 42 milljarða kr. uppsafnað árið 2022 og verði þá orðin um 230 milljarðar kr. Þetta svarar til þess að framlögin verði aukin um rúmlega 22% að raunvirði yfir tímabilið.

Helstu verkefni á sviði heilbrigðismála eru nýr Landspítali, áfram verður unnið að styttingu biðlista og hjúkrunarrýmum fjölgað. Nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur gildi og stefnt er að lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabilinu. Tekið verður á geðsjúkdómum með fjölþættum aðgerðum um land allt og sálfræðiþjónusta aukin í skólum.

Auk verkefna á sviði heilbrigðismála rúmast fjöldamörg önnur verkefni innan fjármálaáætlunarinnar, þeirra á meðal verkefni sem snúa að helstu áherslumálum ríkisstjórnarinnar. Þar má nefna kaup á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, jafnframt því sem Dýrafjarðargöng og nýr Herjólfur verða tekin í notkun á tímabilinu. Verkefninu Ísland ljóstengt lýkur á kjörtímabilinu. Útgjöld til háskólastigsins verða aukin til að auka gæði og standast alþjóðlegan samanburð. Innviðir ferðaþjónustunnar verða styrktir á ferðamannastöðum og í samgöngukerfinu. Hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verður hækkað. Stuðningur við öryrkja verður endurskoðaður, meðalgreiðslur hækkaðar og aðstoð við atvinnuleit aukin. Stofnframlög til byggingar almennra leiguíbúða munu mæta vaxandi húsnæðisþörf. Notendastýrð persónuleg aðstoð verður lögfest. Úrræði til fyrstu húsnæðiskaupa verða styrkt. Tekið verður á móti auknum fjölda kvótaflóttamanna. Tekið verður á loftslagsmálum með heildstæðum hætti. Rannsóknir og aðgerðir til úrbóta verða tvinnuð inn í mörg málefnasvið.

Fjármálaáætlunin sýnir þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur. Stærstu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðis- og velferðarmál. Áfram verður haldið á þeirri braut að styrkja þessi svið.

Meginatriði er þó að þeir 700–800 milljarðar sem ríkið ver til rekstrar á ári hverju nýtist sem best. Fjármálaáætlunin setur því fram ítarleg markmið, aðgerðir og reynt er að setja sem flest mælanleg markmið. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að auka framleiðni hjá hinu opinbera til að mæta breytingum í samfélaginu, svo sem breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar, þörfum vinnumarkaðarins og til að bregðast við breyttum kröfum um veitingu opinberrar þjónustu. Markmiðið er að þegnarnir fái sem mesta og besta þjónustu fyrir sem minnstan kostnað fyrir skattgreiðendur.

Virðulegi forseti. Þótt áætlunin fjalli um marga þætti ríkisrekstrarins falla margir mikilvægir þættir í rekstri utan hennar, t.d. endurskoðun peningastefnunnar, opnun bókhalds, jafnlaunavottun og umbætur í landbúnaði og sjávarútvegi. Þá er að hefjast vinna sáttanefndar við að endurskoða gjaldtöku í sjávarútvegi sem mun hafa áhrif á fjármálaáætlanir framtíðarinnar.

Í þessari áætlun er fetað einstigi milli aðhalds og eðlilegrar útgjaldaaukningar. Í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar er forgangsraðað í þágu heilbrigðis- og velferðarmála á sama tíma og skólastarf er eflt og 20–25 milljörðum kr. til viðbótar er varið í samgöngumál miðað við síðustu fjármálaáætlun. Áætlunin er metnaðarfull á öllum sviðum, byggir upp til framtíðar á sama tíma og skuldir eru greiddar niður. Þannig skilum við af okkur búi sem léttir róðurinn á komandi áratugum.

Það er bjart fram undan á Íslandi þegar skynsamlega er að málum staðið. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar, jafnvægi og framsýni, bera þessu vitni og um það fjallar þessi fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin leggur nú fram með stolti. Ég hlakka til þeirrar umræðu sem fram undan er í þingsal og nefndum þingsins.