146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hans. Hann segir að það sé bjart fram undan í nánast öllum málaflokkum en nú þegar hefur til að mynda rektor eins háskóla stigið fram og bent á og lýst yfir vonbrigðum sínum með þau framlög sem boðuð eru til háskólastigsins í þessari áætlun. Það liggur fyrir að verulegur hluti þeirrar aukningar sem er boðuð til háskólastigsins er ætlaður í stofnkostnað, þ.e. uppbyggingu Húss íslenskra fræða sem því miður hefur dregist allt of lengi og var tafin óheyrilega af síðustu ríkisstjórn af einhverjum orsökum. Það er mjög gott mál að eigi að byggja það. En það sýnir okkur að framlögin renna ekki nema að litlu leyti til háskólastarfsins sjálfs. Ef við lesum í gegnum áætlunina virðist aðalmarkmiðið að fækka nemendum á háskólastigi þannig að hægt sé að segja að framlög á hvern nemenda aukist. Þeirri áherslu hafa rektorar í háskólum í landinu og háskólafólk áður mótmælt, þ.e. að ætlunin sé að fækka þeim sem stunda háskólanám fremur en að byggja upp öflugt háskólanám og auka framlögin sem eru, ef við skoðum þau á hvern nemanda, helmingi lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum og umtalsvert fyrir neðan meðaltal OECD.

Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess að Vísinda- og tækniráð hefur samþykkt stefnumótun um að þessi framlög eigi að fara upp. Við eigum að ná meðaltali OECD og meðaltali Norðurlanda. Gert var ráð fyrir að það gerðist árið 2020. Við erum algerlega fjarri því í þessari áætlun. Í ljósi þess að Vísinda- og tækniráð er nú fyrst og fremst skipað ráðherrum ríkisstjórnarinnar hverju sinni skilur maður hreinlega ekki hvernig hægt er að samþykkja slíka stefnumótun á þeim vettvangi en leggja svo fram þessa áætlun.

Mig langar að biðja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að útskýra þetta fyrir okkur. Telur hann þetta viðunandi framtíðarsýn, að fækka nemendum í háskólanámi og færa þannig framlögin upp? Telur hann virkilega að þetta sé til raunverulegrar eflingar háskólastigsins?