146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hennar. Hér er verið að hækka framlög til háskólans umfram það sem áður hafði verið gert. Það er auðvitað svo að lengi má gott bæta. Hægt er að gera það með tvennum hætti, annars vegar bæta í framlögin og svo er hægt að skipuleggja námið öðruvísi og hvort tveggja verður gert. Það er það sem þeir sem reka háskólann hverju sinni eru sífellt að velta fyrir sér, hvernig þeir veita sem besta og markvissasta menntun fyrir þau framlög sem ríkið úthlutar á hverjum tíma.

Það er vissulega svo að eftir hrun var mikil áhersla lögð á að bæta mönnum lífsgæði og kannski líka framtíðarhorfur með því að fjölga háskólanemum mikið. Ég held að það hafi verið góð og skynsamleg stefna. Nú eru hins vegar aðrar aðstæður. Það er meiri atvinna og má búast við að þar með sé minni eftirspurn hlutfallslega eftir háskólanámi. Þarna kom umframeftirspurn hjá fólki sem ekki hafði vinnu og vildi þá nýta tímann til að bæta þekkingu sína og aðstöðu á vinnumarkaði.

Það sem við erum að gera er að bæta við framlögum á nemanda. Það er í sjálfu sér engin óheilbrigð fækkun nemenda eða niðurskurður sem þessi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir.