146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsi áhyggjum af þessum svörum hæstv. ráðherra, sérstaklega í ljósi þess að ég sagði áðan að mér sýndist allt að helmingur af auknum framlögum renna í stofnkostnað, þ.e. Hús íslenskra fræða, en ekki til þess að bæta menntun í landinu. Háskólarnir hafa verið undirfjármagnaðir lengi. Það er orðið brýnt að gera eitthvað í því.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að öðru máli. Hér samþykkti Alþingi Íslendinga ályktun um að fagna 100 ára afmæli fullveldisins. Meðal þess sem Alþingi Íslendinga samþykkti einróma, en fullveldið á afmæli 2018, var að gert yrði ráð fyrir náttúruminjasafni í næstu framlögðu fjármálaáætlun. Nú langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvar nákvæmlega ég finni náttúruminjasafnið í fjármálaáætluninni. Ég hef nefnilega enn ekki fundið það. Ég sé það ekki inni í kaflanum um menningarmál og vart getur náttúruminjasafnið verið inni í kaflanum um háskólamál. Hæstv. fjármálaráðherra, hvar er náttúruminjasafnið sem Alþingi er búið að samþykkja? (Forseti hringir.) Við getum að sjálfsögðu ekki gengið fram hjá samþykkt Alþingis um að gert verði ráð fyrir uppbyggingu náttúruminjasafns í næstu fjármálaáætlun. Þetta er næsta fjármálaáætlun eftir að sú ályktun var samþykkt.