146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna sem ég hlustaði á agndofa. Ég velti fyrir mér: Getur verið að hæstv. ráðherra sé að lýsa sömu fjármálaáætlun og ég hef verið að lesa undanfarna daga? Í mínum huga er himinn og haf á milli þess sem stendur í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar og þess sem stendur í stefnuskrá og á síðu Viðreisnar sem hæstv. ráðherra veitir forystu.

Telur hæstv. ráðherra það vera í takti við kosningaloforð, yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og stefnu Viðreisnar að setja aðeins 338 millj. kr. í sjúkrahúsþjónustu á milli áranna 2017 og 2018 og að stærsti hluti viðbótar við sjúkrahúsþjónustu fari í byggingu nýs Landspítala? Ég fagna því að það eigi að byggja nýjan Landspítala, en á að skera niður þjónustuna á meðan við bíðum eftir byggingunni?

Þegar horft er á fjölgun hjúkrunarrýma er sú fjölgun sem gert er ráð fyrir einungis helmingur af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými fram til ársins 2020. Það stendur hreinlega í textanum að verið sé að skjóta vandanum vegna öldrunar þjóðarinnar til næstu ríkisstjórnar, skjóta málunum inn í framtíðina.

Er þetta framtíðarsýnin sem hæstv. ráðherra telur að rími vel við kosningaloforðin, stefnu Viðreisnar og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?