146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel það undarlegan reikning að viðbót upp á á fjórða hundrað milljónir króna sé talin niðurskurður. Það er öðruvísi útreikningur en ég er vanur. Auðvitað skiptir geysilega miklu máli fyrir framtíð og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi að hér er verið að fjármagna og byggja þjóðarsjúkrahús og það á að vera langt komið á þessu áætlunartímabili. Kannski er mesta framfaramálið sem við getum séð fyrir okkur í heilbrigðisþjónustunni að við fáum nútímalegt sjúkrahús, förum úr húsi sem er orðið — ég hygg að allir hv. þingmenn séu sammála um það — algjörlega óboðlegt, sem heldur nánast hvorki vatni né vindum. Menn eiga í miklum vandræðum. Ég verð að vísa því algjörlega á bug að það sé lítið eða ómerkilegt framlag að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús fyrir tugi milljarða króna. Það er mjög mikilvægt að við forgangsröðum í þágu þess að við getum byggt upp nýtt og glæsilegt hátæknisjúkrahús á árunum 2018–2023.

Við erum að bæta við á öllum sviðum. Það er vissulega rétt að hér var lengi vel af ýmsum ástæðum ekki hægt að byggja upp og jafnvel skorið niður í sjúkrahúsþjónustu. Það var t.d. gert markvisst á árunum 2009–2013 af ástæðum sem við þekkjum öll en nú er verið að byggja upp aftur og ég held að við eigum að fagna því sameiginlega. Við færumst alltaf nær og nær settum markmiðum. Við áttum okkur á því í Viðreisn að þar tekur maður eitt skref í einu.