146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég hrædd um að hæstv. ráðherra hafi alls ekkert hlustað á mig þegar ég beindi til hans spurningum. Ég fagnaði því sérstaklega að hér ætti að byggja háskólasjúkrahús. Við höfum beðið eftir því lengi og ég fagna þessu skrefi.

En hvað eiga sjúklingar að gera á meðan? Eiga þeir að halda í sér? Hæstv. ráðherra segir að það sé undarlegur reikningur að 338 millj. kr. aukning sé niðurskurður. En þegar fjölgun sjúklinga er metin upp á 1,7–2% á ári er þetta niðurskurður því að 338 millj. kr. til allrar sjúkrahúsþjónustu í landinu er upp á sirka 0,4%. Það er augljóst. Meðan ríkisstjórnin talar um og slær um sig með að hér sé mikil aukning í heilbrigðisþjónustunni er boðaður niðurskurður á sjúkrahúsum landsins.