146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta andsvar hv. þingmanns byggir kannski aðeins á misskilningi. Fjárhæðirnar þarna eru á föstu verðlagi og hagvöxtur byggir ekki á verðbólgu heldur er það vöxtur á föstu verðlagi. Þarna er um raunvöxt að ræða þrátt fyrir að líklega verði verðbólga líka, ég held að við getum verið nokkuð sammála um það þótt það sé reyndar ekki alveg víst vegna þess að ef við horfum fram hjá hækkun á húsnæðisverði undanfarna 12 mánuði hefur verið verðhjöðnun á Íslandi upp á 1,5%. Það er reyndar hugsanlegt að ekki verði um það að ræða en við gerum engu að síður ráð fyrir því. Þarna eru grunnforsendur raunverulegur hagvöxtur sem byrjar upp á rúmlega 4% og dansar svo í kringum 3% seinni partinn og minnkar, verður 2,7–2,8% í lok tímabilsins. Hann er þá farinn að laga sig að meðaltalshagvexti yfir langt tímabil.

Það verður að segjast alveg eins og er, eins og einn hv. þingmaður benti hér á, að áætlun til langs tíma verður auðvitað aldrei mjög nákvæm en við reynum að draga úr svona sveiflum með því að horfa á fast verðlag og ákveðnar forsendur þar sem við horfum á meðaltalshagvöxt þegar lengra dregur frá nútímanum.