146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nýta þetta andsvar til að svara hv. þingmanni, svo vel sem ég get. Ég vil vekja athygli á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur komið fram og talað um að takmarka eigi leyfi til fiskeldis og hvatt til þess að menn fari ekki þar í stjórnlausan vöxt. Ég get vel ímyndað mér að þar væri eðlilegt að vera með auðlindagjöld. Þarna er verið að nýta sameiginlegar auðlindir í rekstur einkafyrirtækja.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um græna skatta: Það er vissulega rétt, það er fleira sem mengar en kolefni. Ég hef til dæmis haft til athugunar í fjármálaráðuneytinu skattlagningu á dísli og bensíni en menn töldu á sínum tíma að bensín væru hættulegra en dísill hvað varðar mengun. Nú hafa nýjustu rannsóknir sýnt að alvarleg mengun kemur frá dísli þótt það sé ekki kolefnismengun. Mér finnst eðlilegt að við skoðum skattlagningu á þessu eldsneyti.

Varðandi rafbíla eru engin áform um að afnema undanþágur á þeim á allra næstu árum, svo að ég segi það eins og það er. Við viljum því áfram hvetja til notkunar þeirra.

Að lokum: Það er eðlilegt að gerð sé aðhaldskrafa í góðæri til að auðveldara sé að grípa til ríkisráðstafana í harðæri.