146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er ánægjulegt að heyra um rafbílana, að ekki eigi að skattleggja þá, eða öllu heldur að viðhalda eigi því ástandi sem verið hefur. Eins er það afar mikilvægt mál að skattleggja bæði dísil og bensín meira en verið hefur því að við viljum, eða ég alla vega og við Vinstri græn, leggja áherslu á að gera hvað við getum til að draga úr aukinni umferð eins og kostur er.

Það er líka gott að heyra um laxeldisleyfin. Ég hef heyrt í ráðherra sjávarútvegsmála að hún hyggist ekki fara í stjórnlausar aðgerðir. En í sjálfu sér hefur það hvergi komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og er ekki lagt til í þessu fimm ára plani. Það liggur alveg fyrir að taka eigi auðlindagjöld af þessu frekar en að taka auðlindagjald í auknum mæli af einhverjum af auðlindum okkar. Ég hefði líka viljað sjá og heyra í ráðherra hvort hann teldi að taka ætti það til endurskoðunar að stóriðjan hefur verið vel sett þegar kemur að greiðslu þessara gjalda.

Varðandi aðhald í góðæri. Hæstv. ráðherra veit væntanlega eins og ég að ráðuneytin segja að þau geti ekki safnað sér upp í þau 2% sem þeim er ætlað að gera, þ.e. að búa sér til varasjóð, vegna þess að þau eru svo vanfjármögnuð — sum hver, ég ætla ekki að segja að þau séu það öll. Það hefur komið fram á fundi fjárlaganefndar að þau eru vanfjármögnuð. Það þýðir þá að þau (Forseti hringir.) geta ekki brugðist við þegar illa árar eða þegar bregðast þarf við einhverju sem ætti að vera að hægt að leysa innan ráðuneytis, nema þau fái viðbótarfjármagn.