146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Það er 11 milljarða veikleiki á fjárlögum ársins í ár nú þegar kominn fram. Það eru 8,4 milljarðar sem hafa verið teknir inn í þá fjármálaáætlun sem við fjöllum um núna, af þessum 11 milljörðum. Sem þýðir í raun að það er „status quo“ í stöðunni. Það er ekki verið að bæta upp þar. Þarna erum við að tala um málaflokka sem er erfitt að ná utan um. Við erum að tala um S-merkt lyf og hælisleitendur og fleiri þætti sem eru erfiðir fyrir okkur að eiga við. Ég tek undir með ráðherranum að það er mjög skynsamlegt að við finnum út úr því á hverjum tíma hvort við getum veitt betri þjónustu fyrir minna fjármagn. En við vitum líka að ekki var byggt nægjanlega upp á síðasta kjörtímabili; eftir að hafa gengið í gegnum hrunið er alveg ljóst að stofnanirnar okkar eru margar hverjar mjög illa haldnar. Ég nefndi hér áðan framhaldsskólana. Þótt nemendum sé að fækka áttu þeir peningar sem sparast við það að skila sér inn til skólanna. En hvað gerist? Hér er boðið upp á 1.700 millj. kr. niðurskurð. Það er ekkert smáræði. Það er ekki verið að standa við gefin loforð, standa við að styrkja stofnanirnar sem búa við að geta ekki tekið á móti nemendum, geta ekki notað nýjustu forritin o.s.frv.

Það er ekki nóg að styðja og styrkja við stofnanir sínar og ráðuneyti hvað það varðar hvernig megi gera betur. Það er vel og um að gera. En það er vanfjármögnun mjög víða í kerfinu þrátt fyrir að við getum gert betur með ýmsum öðrum aðgerðum. Það er kannski það sem mér finnst algerlega horft fram hjá í þessari fjármálaáætlun. Fyrir utan að hún er ekki gagnsæ hefur maður verið að reyna að rýna í hana og skilja, en þrátt fyrir góð áform verðum við að horfast í augu við að ekki er nóg að gert.